135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[16:27]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi reglugerðarheimildir þá nefndi ég þær sem almennt atriði sem endurspeglast í frumvarpinu. Þó að ákvæði úr reglugerðunum hafi verið sett inn í frumvarpið er það enn þá galopið um mjög mikilsverð atriði og ég gagnrýni það. Það kom mér mjög á óvart að heyra hæstv. dómsmálaráðherra segja að umsagnir að vönduðu frumvarpi bindi hendur löggjafarvaldsins. Við erum algerlega sjálfstæð í okkar störfum. Ef fyrir liggja skriflegar umsagnir þá kallar maður aðila til að gefa umsagnir munnlega og spyr þá út frá þeim gögnum sem fyrir liggja og ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann þá á móti handbókinni um smíð frumvarpa? Leggst hann gegn því? Það eina sem ég ræddi var í anda handbókar sem byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í október í fyrra. Það var ekki meira.

Ég vildi líka spyrja hæstv. ráðherra að því hvað hann hyggist gera varðandi konur sem sitja í gíslingu ofbeldis. Enn fremur vil ég biðja hæstv. ráðherra að skýra hvernig hann hyggist (Gripið fram í.) tryggja börnum eða ungmennum 18 ára og eldri framfærslu í reglugerð. Ég tel einsýnt að setja það í lög.