135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[17:32]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að hafa nokkur orð um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar sem er frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum sem nokkrir hv. þingmenn flytja. Ef ég skil rétt megintilgang þessa frumvarps þá er tilgangurinn sá að banna auglýsingar með áfengi í íslenskum fjölmiðlum. Ég get ekki skilið frumvarpið öðruvísi en svo að flutningsmenn þess vilji stoppa upp í það sem þeir kalla göt á núverandi löggjöf með það að markmiði að slíkar auglýsingar verði bannaðar.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að margt má betur fara í núverandi löggjöf varðandi áfengisauglýsingar. Ég mundi styðja það að sú löggjöf yrði endurskoðuð vegna þess að við höfum séð að menn hafa farið í kringum ákvæði laganna og auglýst áfengi með þeirri aðferð að þeir hafa skotið sér á bak við lögin með því að taka það fram að um auglýsingu á óáfengum drykkjum sé að ræða þegar engum dylst að tilgangurinn með auglýsingunum er annar. Þetta vita allir og þekkja. Við þurfum ekki nema að horfa á sjónvarpið þessa dagana, þar sem mikið er um útsendingar frá íþróttakappleikjum, að slíkar auglýsingar eru birtar sem aldrei fyrr.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að fara kannski aðra leið en flutningsmenn þessa frumvarps vilja fara. Ég mundi vilja endurskoða löggjöfina á þá leið að auglýsingar með áfengi verði heimilaðar með skýrum og skorinorðum reglum sem ganga m.a. út á það að slíkar auglýsingar verði ekki birtar á útsendingartíma þegar börn og ungmenni eru að horfa á sjónvarp og miðist eingöngu við auglýsingar á léttum vínum og bjór.

Ég hef ekki trú á því að það sé skynsamlegt að banna áfengisauglýsingar með öllu m.a. af þeirri ástæðu að áfengi er jú lögleg vara á Íslandi og við verðum að horfast í augu við það. Hvers vegna ættu menn að banna auglýsingar á vörum sem Alþingi hefur áður komist að niðurstöðu um að séu löglegar?

Þar fyrir utan þá streyma hér til landsins upplýsingar úr erlendum fjölmiðlum, tímaritum og dagblöðum. Íslendingar hafa sem betur fer aðgang að netinu og hér eru sjónvarpsútsendingar frá erlendum sjónvarpsstöðvum heimilaðar þar sem slíkar auglýsingar koma fyrir. Spurningin er því: Hvernig ætla menn að taka á slíkum auglýsingum? Það verður auðvitað ekki gert enda höfum við Íslendingar enga lögsögu yfir slíkum auglýsingum. Það verður ekki gert öðruvísi en svo að banna innflutning á erlendum tímaritum hingað til lands, loka fyrir erlendar sjónvarpsútsendingar og setja hömlur á notkun netsins. Af þeirri ástæðu er því alveg ljóst að það bann sem hér er verið að mæla fyrir, og ég heyri að hv. þm. Ögmundur Jónasson er hlynntur, hefur þessa vankanta í för með sér.

Ég hef sjálfur í félagi við nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins á fyrri þingum lagt fram frumvarp til laga um breytingar á áfengislöggjöfinni. Í því frumvarpi er bent á það að Ísland er eitt örfárra landa þar sem almennt bann gildir við auglýsingum á áfengi. Í flestum ríkjum Evrópu eru þó í gildi einhvers konar takmarkanir á áfengisauglýsingum.

Þar sem áfengisauglýsingar eru ekki bannaðar er meginefni áfengislaga og reglna þar að lútandi að mæla fyrir um hvað má koma fram í áfengisauglýsingum og að hverjum þær megi beinast, að því er fram kemur í skýrslu vinnuhóps ríkislögreglustjóra sem er fylgiskjal með því frumvarpi sem við hér ræðum.

Norðurlöndin, að Finnlandi frátöldu, skera sig nokkuð úr hópi Evrópuríkja og eru takmarkanir þar mun strangari en annars staðar í Evrópu. Nýlega hefur reynt á bannákvæði sænsku og norsku áfengislaganna gagnvart skuldbindingum þessara ríkja, samkvæmt EES-samningnum í tilviki Noregs en gagnvart ESB-sáttmálanum í tilviki Svíþjóðar.

Þann 8. mars 2001 kvað Evrópudómstóllinn upp forúrskurð sinn í máli sem undirréttur í Svíþjóð, Stockholms Tingsrätt, skaut til hans og varðaði gildi auglýsingabanns gagnvart reglum Evrópusambandsins um frjálst flæði vöru og þjónustu innan sambandsins. Bannákvæði sænsku laganna eru svipaðs efnis og 20. gr. áfengislaganna íslensku. Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að reglur um frjálst flæði á vörum og þjónustu komi ekki í veg fyrir auglýsingabann nema hægt sé að ná markmiðum bannsins, sem eru heilsuverndarmarkmið, með aðferðum sem hafi minni áhrif á markaðsfrelsið. Dómstóllinn eftirlét síðan sænskum dómstólum að meta hvort meðalhófs væri gætt með þágildandi bannákvæði. Í nóvember árið 2003 féll síðan dómur í þessu sama máli í Svíþjóð. Komst yfirréttur að þeirri niðurstöðu að áfengisbannið bryti gegn reglum um frjálst flæði vöru og þjónustu. Taldi rétturinn að hægt væri að halda áfengisneyslu niðri með aðferðum sem hefðu minni áhrif á markaðsfrelsi. Auglýsingabannið væri með öðrum orðum brot á reglunni um meðalhóf.

Þann 25. febrúar 2004 komst EFTA-dómstóllinn að sömu niðurstöðu og Evrópudómstóllinn í máli nr. E-4/04, Pedicel AS gegn Sosial- og helsedirektoratet, er dómstóllinn veitti norskum undirrétti ráðgefandi álit um sömu álitaefni og uppi voru í sænska málinu. Niðurstaðan var sú að reglur um frjálst flæði á vörum og þjónustu komi ekki í veg fyrir auglýsingabann nema hægt sé að ná markmiðum bannsins, sem eru heilsuverndarmarkmið, með aðferðum sem hafi minni áhrif á markaðsfrelsið og það kæmi síðan í hlut dómstóla í einstökum aðildarríkjunum að úrskurða um hvort meðalhófi væri fylgt í landslögum. Gekk EFTA-dómstóllinn lengra en Evrópudómstóllinn að því leyti að hann setti fram nokkur viðmið sem dómstólar aðildarríkjanna ættu að hafa leiðarljósi við slíkt mat.

Í fyrsta lagi benti dómstóllin á að samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins væri það ekki brot á meðalhófi að banna auglýsingar á áfengi sem væri sterkara en 23%. Í öðru lagi benti dómstóllinn á að talið yrði heimilt að banna auglýsingar sem beindust að ungmennum eða ökumönnum. Í þriðja lagi var bent á að Evrópudómstóllinn hefði nýlega fallist á að bann við áfengisauglýsingum í sjónvarpi væri ekki brot á meðalhófsreglunni. Til þessara sjónarmiða var tekið tillit við samningu þess frumvarps sem ég vék að hér áðan og veit að hv. þingmaður þekkir.

Í skýrslu vinnuhóps ríkislögreglustjóra sem vísað er til í frumvarpinu, er vísað til þess álits Evrópudómstólsins um hvort hægt sé að ná markmiðum auglýsingabannsins um að vernda heilsu almennings fyrir skaðlegum afleiðingum áfengisneyslu með öðrum aðferðum sem minni áhrif hafi á innri markað aðildarríkjanna. Segir um þetta í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Þessi spurning er allrar athygli verð og fyllsta ástæða fyrir löggjafann að skoða málið frá þessari hlið ef til endurskoðunar ákvæðis laga um bann við áfengisauglýsingum kemur.“

Ég tel að það sé mikilvægt í ljósi orða úr skýrslu ríkislögreglustjóra, þeirra dóma sem gengið hafa í nágrannalöndunum um málið og þeirra álita Evrópudómstólsins sem fyrir liggja, að núgildandi reglur um auglýsingar á áfengi í íslenskum fjölmiðlum verði teknar til endurskoðunar á Alþingi Íslendinga. En ég mundi frekar vilja sjá að þeirri löggjöf verði hagað á þann hátt að áfengisauglýsingar yrðu leyfðar með skýrum reglum um það með hvaða hætti þær ættu að koma fram og mundu birtast.

En ég hef mikla fyrirvara um það í ljósi þess að hér er um löglegar vörur að ræða. Við höfum aðgang að erlendum fjölmiðlum þar sem slíkar auglýsingar eru leyfðar og því hef ég verulega fyrirvara við það að rétt sé að fara þá leið hér á Íslandi að leggja bann við slíkum auglýsingum.