135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

meðferð opinberra mála.

89. mál
[18:39]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef löngum haft áhuga á að gæta hagsmuna einstaklingsins og frelsis hans og sérstaklega vernda hann fyrir ríkisvaldinu. Ég tek því eindregið undir þetta frumvarp sem gengur út á það að vernda einstaklinginn fyrir einni mestu mannréttindaskerðingu sem eru hleranir. Ég tek hins vegar undir það sem síðasti hv. ræðumaður sagði um að það þyrfti að sjálfsögðu að skrifa miklu meira um það hvaða hlutverki slíkur réttargæslumaður ætti að gegna, t.d. að hann gætti fullkomlega þagmælsku gagnvart þeim sem hann á að gæta réttar fyrir. Mér finnst líka vanta inn í atriði sem ég hef oft hugleitt: Þegar heimild er veitt til hlerana ætti að upplýsa viðkomandi um það einhverjum árum seinna. Þegar málið er afgreitt og búið að finna á því lausn verði upplýst um það, ef við segjum eftir sex ár eða síðar ef málsástæður krefjast, að sími hans hafi verið hleraður af þessari eða hinni ástæðunni. Mér finnst eðlilegt að það sé gert.

Ég vil ganga enn lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir því að mjög gildar ástæður eiga að vera fyrir því að sími — eða kvikmyndun, ljósmyndun, hlustun o.s.frv. — sé hleraður, menn þurfa að geta rökstutt það hvenær sem er. Ég vil að þegar viðkomandi máli er lokið, hvernig sem það fór, jákvætt eða neikvætt, verði viðkomandi upplýstur um það að sími hans hafi verið hleraður fyrir þetta og þetta mörgum árum og að mönnum sé gefinn ákveðin frestur, sex ár eða eitthvað slíkt, til þess að gera það nema aðstæður banni.

Ég tek eindregið undir frumvarpið. Ég vil að menn fái réttargæslumann og ég vil ganga lengra.