135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

almenn hegningarlög.

192. mál
[19:22]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að segja okkur frá þessari frétt BBC sem ég hafði reyndar heyrt sagt frá í fjölmiðlum hér á landi. Það er athyglisvert við þá frétt að þeir sem vitnað er til, þrír einstaklingar, segja allir aðra sögu en stjórnvöld í Svíþjóð. Stjórnvöld þar gefa út opinberar tölur og segja að vændiskonum í Svíþjóð hafi fækkað úr 2.500 í 1.500, eftir því sem segir í fréttinni, á því tímabili sem löggjöfin hefur verið við lýði.

Skoðanakannanir í Svíþjóð sýna að það er mjög mikill stuðningur meðal almennings við löggjöfina. Ég held að ég muni það rétt að um 80% þjóðarinnar svari í þessum könnunum að þau styðji löggjöfina og telji hana vera af hinu góða. En svo koma einstaklingar eins og nefnd Petra Östergren og verkefni hennar, sem hæstv. ráðherra nefnir að hafi verið sagt frá í þessari frétt. Við sem höfum unnið í þessum málaflokki hér munum þegar Petra Östergren kom til Íslands fyrir tilstuðlan ungra sjálfstæðismanna og flutti erindi um mannfræðiverkefni sitt í Norræna húsinu. Það kom auðvitað í ljós þegar vísindamenn fóru að skoða það verkefni að það var í sjálfu sér ekki rannsókn heldur viðtöl við tíu vændiskonur eða einhvern ákveðinn fjölda vændiskvenna og var svona ákveðin skoðun á ástandi sem þó gat ekki talist rannsókn út frá félagsfræðivísindunum.

Petra Östergren hefur starfað fyrir vændiskonur í Svíþjóð og reynt að gæta réttinda þeirra og hefur eflaust unnið gott og þarft verk í þeim efnum. En það er langsótt að vitna til verkefnis hennar aftur og aftur, það er líka orðið nokkuð gamalt og komið til ára sinna en þeir sem eru andsnúnir þeirri hugmynd að gera kaup á vændi refsivert nota verkefni Petru Östergren gjarnan og vitna til þess.

Lögreglumaðurinn sem hæstv. ráðherra vitnaði til og sagt er frá í fréttinni segir að vændi hafi meira en tvöfaldast í Svíþjóð á tímabilinu. Hann hefur heldur ekki neina rannsókn að baki sinni fullyrðingu og orð hans stangast á við orð lögreglumannsins sem við fengum hingað í heimsókn frá Gautaborg og ég man ekki nákvæmlega nafnið á núna, en sagt er frá í skýrslu starfshópsins sem ég nefndi áðan.

Sú kenning eða fullyrðingar að vændi færist neðan jarðar verði það gert refsivert og harðræði sem vændiskonur þurfa að búa við aukist og mansal aukist, eru alveg þess virði að skoða þær. Nokkrar rannsóknir sem ég hef séð hafa leitt í ljós að ef vændi er gert löglegt þá sé búin til sæmilega snyrtileg ímynd á vændishúsin og þar þrífst ákveðin tegund vændis sem er leyfisskyld en svo virðast rannsóknir leiða í ljós að bak við þessa huggulegu framhlið þrífist sömuleiðis afskaplega ógeðfelldur, ofbeldisfullur og viðbjóðslegur heimur þar sem vændiskonur og þeir sem leiðast út í vændi búa við verulegt harðræði. Það er heldur ekki lausn að setja upp huggulega framhlið, búa til eitthvert ímyndað regluverk og halda að þar með séu einhver mál leyst. Þetta segi ég til að fólk átti sig á því að vandamálið sem við er að etja er verulega flókið til úrlausnar og það er engin einföld lausn á því. En í mínum huga og okkar sem flytjum þetta mál og höfum barist fyrir því að þessi aðferð verði innleidd í íslenskan rétt, er það algjörlega ljóst að af þeim aðferðum sem við höfum kannað sýnir þessi mestan árangur. Þessi aðferð er að okkar mati til þess fallin að auka reisn fólks og virðingu fólks fyrir öðrum.

Ég hvet þess vegna hv. allsherjarnefnd Alþingis til að skoða málið niður í kjölinn. Nú eru komnir nýir einstaklingar í þá nefnd sem ekki voru í henni þegar við skoðuðum málið síðast og ég treysti því að það fái opna umræðu í nefndinni og vandaða umfjöllun. Og ég hlakka til þess, hæstv. forseti, þegar málið kemur til 2. umr. og þingmenn í þessum sal fá að taka afstöðu til þess.