135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

losun koltvísýrings o.fl.

299. mál
[15:36]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þetta er svolítið skemmtileg fyrirspurn, hvort við stöndum frammi fyrir því að krafa verði gerð á okkur um að virkja meira. Ég óttast ekki að það verði gert varðandi Gullfoss og Dettifoss en það er alveg ljóst að það er ákall á alþjóðavettvangi um að ríki heims nýti sér þá endurnýjanlegu orku sem þau hafa almennt. Mjög fá ríki hafa mikla endurnýjanlega orku, en það höfum við. Það er í anda Kyoto-samningsins að nýta endurnýjanlega orku, það er mjög stórt atriði.

Hæstv. ráðherra segir að það sé sex sinnum betra að nýta okkar orku frá Kárahnjúkavirkjun en kolin í Kína. Ég hef yfirleitt heyrt töluna átta sinnum, en allt í lagi, þetta er mjög nálægt því. Mig langar aðeins að spyrja: Hvar standa málin? Nú vinnur ráðherrahópur að þessum málum. Er einhvers að vænta frá honum? Hann hefur verið klofinn í afstöðu sinni, og hvað þá forsætisráðherra sem hefur viljað viðhalda (Forseti hringir.) íslenska ákvæðinu. Má búast við því að við fáum að vita bráðum hvert ríkisstjórnin ætlar að halda í þessu máli?