135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu.

[10:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem áður hefur komið fram, gagnrýni á furðulegt andvaraleysi ríkisstjórnarinnar. Við erum búin að ræða svokallaðar mótvægisaðgerðir frá því í sumar og við heyrum bara um nefndir á nefndir ofan sem skipaðar hafa verið.

Það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill verja sjávarauðlindina, við viljum fara þar varlega fram en við viljum líka verja fólkið, það fólk sem starfar við fiskvinnsluna og við viljum grípa til raunhæfra aðgerða þar að lútandi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum sett fram tillögur, t.d. þess efnis að allur fiskur fari hér á markað en sé ekki fluttur til útlanda til vinnslu þar. Fram til 1. september í haust voru hömlur á útflutningi á óunnum fiski, (Forseti hringir.) þær voru afnumdar. Við fengum að heyra að nefnd væri að störfum hvað það atriði snertir. Hvað líður starfi þeirrar nefndar?