135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

innheimtulög.

324. mál
[11:15]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir að flytja það frumvarp sem hér er til umræðu, frumvarp til innheimtulaga. Það er löngu tímabært að sett verði skýr ákvæði sem marka ákveðnar reglur um innheimtulög, ekki síst með tilliti til hagsmuna skuldara í landinu og til þess að skapa ákveðið réttaröryggi. Í hinu frjálsa markaðskerfi er miðað við að markaðurinn, framboð og eftirspurn, ráði og geti lækkað verð en því er þannig varið með þessa starfsemi að þeir sem borga kostnaðinn biðja ekki um eða velja þann innheimtuaðila sem um er að ræða. Þannig að hér skýtur mjög skökku við hvað það varðar.

Ég tel það skipta verulegu máli að setja lög eins og þessi þar sem m.a. er kveðið á um það, og það er í raun verkefni ráðherra að hafa með það að gera, hvaða hámarkstaxta eða hámarksgjöld má leggja á þá sem innheimt er hjá. Þar af leiðandi hefði ég talið heppilegra að orðalag 12. gr. laganna hefði verið svohljóðandi: Viðskiptaráðherra skal að höfðu samráði við helstu hagsmunaðila ákveða í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Að það sé ekki valkvætt heldur tvímælalaus regla að það sé verkefni viðskiptaráðherra að ákveða með reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar en að sjálfsögðu geta menn farið niður fyrir hana. Ég veit að þannig háttar til a.m.k. í Noregi að þar eru gefnar út skrár um hver sé hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Til að ná fram þeim tilgangi sem að er stefnt með því frumvarpi sem hér um ræðir þá tel ég að það eigi að vera ótvírætt verkefni og skylda ráðherra að gefa út slíkar reglur um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar.

Það eru ýmis atriði sem hægt er að velta fyrir sér hvort mættu vera öðruvísi. Í heild tel ég það lagafrumvarp sem hér liggur fyrir vel gert og vel grundað og þar komi fram helstu atriði sem skipta máli við að koma hér á góðum innheimtuháttum. Þó eru nokkur atriði sem hljóta að koma til skoðunar í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar, eins og t.d. það hvort heimila eigi lögaðilum á grundvelli ákveðinna skilyrða, ekki bara einstaklingum, að hafa með innheimtustarfsemi að gera.

Hvað varðar 6. gr. frumvarpsins þá er spurning hvort skilgreina ætti að einhverju leyti hvað átt er við með góðum innheimtuháttum og hvort taka ætti jafnvel ákvæði sem koma fram í greinargerð frumvarpsins inn í lögin sjálf, þannig að fram komi frekari skilgreining á því hvað átt er við með góðum innheimtuháttum, hvaða hættir það eru. Þá er spurning um hvort skilgreina eigi það jákvætt eða neikvætt, þ.e. hvað teljast ekki góðir innheimtuhættir, með hvaða hætti og hvernig ekki megi koma fram gagnvart skuldara.

Þegar setja á lög eins og þessi þar sem um er að ræða starfsemi sem er mjög viðkvæm og veldur þeim einstaklingum sem fyrir verða oft og tíðum mjög miklum erfiðleikum og sársauka þá skiptir máli að þannig sé farið að að það valdi sem minnstri röskun á lífi eða starfi þeirra sem fyrir því verða eða þurfa að verða. Með tilliti til þess hvernig það þjóðfélag sem við búum í hefur þróast, þegar við lesum um það að ákveðnir aðilar sem hafa ekki endilega sérstaka löggildingu til að stunda innheimtustarfsemi gera það, þá er spurning hvort þjóðfélagið geti sett ákveðna vörn til að gera slíka innheimtustarfsemi óheimila og tryggja betur hagsmuni borgaranna.

Ég tel að koma þyrfti viðbótarákvæði í innheimtulögin þar sem sérstaklega væri kveðið á um með hvaða hætti og hvernig heimilt væri að snúa sér persónulega til skuldara. Ég tel að setja þyrfti ákvæði í lög um að slíkt mætti ekki gera án undanfarandi skriflegrar viðvörunar sem bærist skuldara fyrir fram þar sem getið yrði um það ótvírætt hvenær dags og hvar innheimtuaðilinn muni snúa sér til skuldara. Ég tel að í slíkri tilkynningu þyrfti líka að koma fram símanúmer og heimilisfang innheimtuaðila og að ekki megi senda slíka tilkynningu fyrr en frestur er liðinn samkvæmt innheimtuviðvörun þeirri sem getið er um og kveðið er á um í lagafrumvarpinu.

Síðan er spurning um það hvenær og hvernig megi snúa sér til einstaklinga t.d. á heimili þeirra. Ég tel nauðsynlegt að tekið verði upp ákvæði í þau lög sem hér er um að ræða að þar séu undanskildir ákveðnir tímar, m.a. helgidagar þjóðkirkjunnar og sunnudagar og að ekki sé hægt að snúa sér til skuldara fyrr en eftir klukkan átta að morgni og ekki lengur en til klukkan tuttugu og eitt að kvöldi og svo skemmri tími á laugardögum þannig að ekki sé verið að valda óeðlilegri röskun.

Þá er spurning um hvort setja eigi ákvæði um það með hvaða hætti eða hvernig eigi að snúa sér að skuldaranum persónulega á heimili hans eða vinnustað og sérstaklega ef skuldari rekur ekki atvinnustarfsemi. Loks er spurning um að setja líka ákvæði í framhaldi af því að viðkomandi aðili, sem snýr sér persónulega til skuldara, geti sýnt fram á heimildir gagnvart skuldara með því að framvísa skilríkjum þar að lútandi.

Ég er í megindráttum sammála því frumvarpi sem hér er lagt fram og tel það vera mjög gott og vel unnið frumvarp og ítreka þakklæti mitt til hæstv. viðskiptaráðherra fyrir að koma frumvarpinu fram með þeim hætti sem hann gerði. Ég hefði hins vegar talið æskilegt að fá fyllri ákvæði um hvað átt væri við með góðum innheimtuháttum eins og ég gat um áðan. Ég tel einnig að setja þyrfti frekari varnaðarákvæði um hagsmuni einstaklinganna þannig að innheimtuaðilar geti ekki hvenær og hvar sem er snúið sér til þeirra, komið á heimili þeirra eða valdið þeim óeðlilegri röskun. Það eru þau ákvæði sem ég vildi gjarnan sjá að næðu fram að ganga og gerð yrði breyting á í umfjöllun nefndar þeirrar sem fær frumvarpið til meðferðar. En ég ítreka þakklæti fyrir að koma þessu löngu tímabæra frumvarpi til innheimtulaga á framfæri við hv. Alþingi.