135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

starfsemi íslensku bankanna.

[13:55]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég fagna svari hæstv. viðskiptaráðherra. Ég heyri á máli hans að hann hefur hugleitt margt af því sem vinna þarf að. En ég spyr, og ætlast til að fá einhver svör við því hvort þessar hugleiðingar hafi að einhverju leyti náð inn á svið athafna. Það er það sem skiptir máli. Ríkisstjórnin hefur setið það lengi að það er löngu tímabært að hún sýni viðleitni í þá átt að hefja einhverjar viðræður sem lúta m.a. að ábyrgðum í bankakerfinu.

Það er rétt að hér stendur margt sterkum fótum. En vissulega hafa orðið þær lækkanir á hlutafjármörkuðum á Íslandi að það er löngu komið að því sem flokkað hefur verið sem kreppa á hlutafjármörkuðum þótt hið sama eigi ekki við um stöðu ríkissjóðs.

En fer einhver umræða fram? Eru einhverjar viðræður milli Seðlabanka og ríkisstjórnar, milli bankanna og Seðlabankans, eða þá við okkar nágrannaþjóðir (Forseti hringir.) um einhvers konar samstarf um ábyrgð ef illa fer í hinni alþjóðlegu efnahagsstefnu?