135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum.

[14:32]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég sat fund ásamt öðrum þingmönnum Norðvesturkjördæmis með bæjarstjórn Akraness og fleirum í gærkvöldi. Þar hafði fyrirtækið HB Grandi einhliða og án nokkurs samráðs við heimamenn ákveðið að loka fiskvinnslu á staðnum nánast algjörlega. Það er fyrirtæki sem starfað hefur óslitið frá 1906, staðið af sér tvær heimsstyrjaldir og efnahagslegar dýfur. Það verður nú að lúta í gras fyrir ranglátu kvótakerfi og einkavæðingu sjávarauðlindanna sem í senn veikja fiskstofnana við landið og rústa atvinnulífi og búsetu í sjávarbyggðum.

Um 540 manns, að stórum hluta konur, hefur nú verið sagt upp í fiskvinnslu vítt og breitt um landið á skömmum tíma. Fjármagni hefur verið pumpað út úr sjávarútveginum til óskyldra hluta. Fiskveiðiauðlindin er ekki í reynd eign útgerðarfyrirtækjanna sem nú nýta sér tækifærið og þjappa veiðiheimildum saman og loka fiskvinnslum hringinn í kringum landið í tilefni af niðurskurði þorskveiðiheimilda.

Boðað var víðtækt samráð með bönkum, útgerðarfyrirtækjum og sveitarfélögum um aðgerðir hvernig mæta ætti því sem gerðist í sumar. Þetta samráð sést hvergi. Ekki var mikið samráð haft við fyrirtækið sem var að loka á Akranesi, virtist vera.

Þjóðin veit að Sjálfstæðisflokkurinn vill óbreytt kvótakerfi. Enginn býst við því að forsætisráðherra Geir Haarde lyfti fingri og aðhafist neitt í þessum efnum frekar en öðru sem steðjar að þjóðinni. Hann hamast við að halda ró sinni. Menn hljóta því að horfa til Samfylkingarinnar, hins flokksins í ríkisstjórn, sem var með mikla svardaga og yfirlýsingar (Forseti hringir.) fyrir kosningar um að kvótakerfinu yrði breytt en þar er enn þagað þunnu hljóði hvað það varðar.