135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum.

[14:41]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Borið hefur við í þessari umræðu eins og stundum áður að menn hafa talað um aflaákvörðunina frá því í sumar sem eins konar meinbægni af minni hálfu eða af hálfu ríkisstjórnarinnar, að ríkisstjórnin hafi sest niður og ákveðið að koma með vondar tillögur til þess að láta nógu illt af sér leiða. Það er auðvitað ekki þannig.

Fyrir okkur lágu upplýsingar um að viðmiðunarstofninn í þorski væri að dragast saman og, það sem meira er, að það stefndi í að hann drægist enn meira saman á næsta ári. Í ljósi þeirra upplýsinga hlutum við að bregðast við. Það gerðum við með ábyrgum hætti og tókum þá ákvörðun að fara með þorskaflann niður í 130 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári og ekki lægra á því næsta.

Hv. þingmenn hafa verið að spyrja eftir því hvort til greina kæmi að auka þennan þorskafla. Fram undan eru mjög viðurhlutamiklar rannsóknir á þorskstofninum, svokallað togararall sem við stóraukum og endurbætum. Vonandi leiðir það til þess að við fáum enn þá gleggri mynd af stöðu þorskstofnsins. Allar umræður um einhverja endurskoðun eru þess vegna alveg ástæðulausar þangað til niðurstaðan af þessum rannsóknum liggur fyrir.

Það er athyglisvert í þessari umræðu að sumir hv. stjórnarandstæðingar leggja af stað með aflaákvörðunina eins og þeir séu staddir á einhverjum uppboðsmarkaði. Fyrst kemur talsmaður Framsóknarflokksins og segir: 20 þúsund tonn í viðbót. Þá vill Frjálslyndi flokkurinn auðvitað ekki vera minni og hann tvöfaldar töluna (Gripið fram í.) og segir: 40 þúsund tonn, 20 þúsund tonn, 40 þúsund tonn. Vesalings Vinstri grænir voru búnir að leggja til að fara niður í 130 þúsund tonn þannig að þeir verða að vera víðs fjarri þessum uppboðsmarkaði. (Gripið fram í.)

Við tölum hér auðvitað um alvarlega hluti, um framtíð þorskstofnsins. Við ætlum að reyna að byggja hann upp. Meðan við erum að ganga í gengum það leggjum við fram verulegt fé úr ríkissjóði til þess að auðvelda byggðunum að komast í gegnum þrengingar. Nú, þegar við stöndum í þessum sporum eigum við að fara yfir málin og reyna að tryggja að það mikla fjármagn sem við höfum tekið til hliðar til þessara hluta skili sér sem best (Forseti hringir.) til fólksins sem virkilega þarf á því að halda, til byggðanna sem eru svo háðar þorskaflanum og sjávarútveginum í landinu.