135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:36]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur svo sem ekki á óvart að þeir eru við sama heygarðshornið þessir menn. Málflutningur þeirra verður alltaf minna og minna marktækur enda talar hv. þm. Grétar Mar Jónsson hér með sama hætti og hann gerir yfirleitt um þessi mál. Ég ætla ekki að fara mjög út í umrætt álit nefndar alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í þeirri nefnd var mikill ágreiningur um niðurstöðuna og það er ágætt að rifja það upp í því samhengi að af þeim löndum sem þar eiga fulltrúa studdu lönd eins og Svíþjóð, Ástralía, Bretland, Japan og Bandaríkin okkar málflutning (MÁ: Tóku ríkin afstöðu?) eða fulltrúar þessara ríkja, (Gripið fram í.) þeir koma frá þessum löndum. (Forseti hringir.) Um þetta er sem sagt mikill ágreiningur í nefndinni og í þessu felst enginn stóridómur heldur gilda á Íslandi þau lög sem þar gilda og Hæstiréttur hefur dæmt eftir.

Sá ábyrgðarlausi málflutningur sem Frjálslyndi flokkurinn og hv. þm. Grétar Mar Jónsson stendur hér fyrir hefur ekki fleytt þeim lengra í pólitíkinni en raun ber vitni. Það er nefnilega þannig að stöðugur ágreiningur hefur verið um þetta kerfi frá því að það kom fram og um það hafa menn deilt. Menn hafa lagt á borð fyrir kjósendur í þessu landi mismunandi skoðanir á því hvaða leið eigi að fara í þessum efnum og engin haldbær lausn, betri en sú sem við vinnum eftir í dag, hefur komið fram. Ég kalla eftir því að menn (Forseti hringir.) komi þá frekar fram með tillögur sem hægt er að fjalla um í stað þess að vera í almennri niðurrifsstarfsemi.