135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:59]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi það sem ég held að við báðir gerum okkur grein fyrir að á hinu háa Alþingi hefur ekki verið og er væntanlega ekki enn þá meiri hluti fyrir því að ganga til þess verks að breyta eða bylta fiskveiðistjórnarkerfinu, ég sagði það áðan og get endurtekið það. Ég er orðinn alveg nógu gamall, og eldri en tvævetur, til að átta mig á því að þessu verður ekki breytt í einu vetfangi, það er ekkert sem við getum búist við, enda er verið að leggja hér til að þetta mál verði sett allt í endurskoðun og það tekur sinn tíma, jafnvel vinstri grænir gefa sér tvö eða þrjú ár áður en nokkur niðurstaða geti fengist af þeirri tillögu sem þeir eru að leggja fram.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég á von á því eða trúi því að menn hlusti og tali saman og skiptist á skoðunum um hvort eitthvað megi betur fara í þessu kerfi. Ég geri mér vonir um það, með vísan til þessa úrskurðar mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, að menn velti því kannski fyrir sér hvort möguleiki sé á að opna kerfið þannig að það verði aðgengi inn í það til að koma til móts við kjarna þessa úrskurðar, sem er fólginn í því að það verði að vera jafnræði til þess að brjóta ekki mannréttindi, þegar um þessi mál er fjallað í áðurnefndum úrskurði.