135. löggjafarþing — 56. fundur,  30. jan. 2008.

stuðningur við fiskvinnslu á Bíldudal.

309. mál
[15:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vek athygli á ósamræmi í þeirri spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín undir lok máls síns annars vegar og hins vegar þeirrar spurningar sem hann kom með skriflega til mín. Í hinni skriflegu fyrirspurn spyr hv. þingmaður hvernig ég hyggist bregðast við ákalli Bílddælinga um beinan stuðning við að koma aftur á fiskvinnslu á staðnum og standa þar með við fyrirheit stjórnvalda í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir því að í hinu skriflega formi sé verið að tala um fyrirheit stjórnvalda um beinan stuðning.

Í máli sínu talaði hann hins vegar með öðrum hætti, þ.e. um fyrirheit um að byggja upp fiskvinnslu á Bíldudal. Þarna er um tvo ólíka hluti að ræða. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég kannast ekki við að ég hafi sem ráðherra eða núverandi ríkisstjórn gefið Bílddælingum eða öðrum fyrirheit um beinan stuðning. Hvað felst í orðunum „beinn stuðningur“? Það hljóta að vera bein fjárframlög eða þá með öðrum hætti byggðakvóti. Við það hefur verið staðið en það er annar ráðherra sem hefur það mál með höndum.

Ég hef hins vegar heyrt það á máli heimamanna að fyrir kosningar hafi forveri minn lofað beinum fjárframlögum til fiskvinnslu auk byggðakvóta frá sjávarútvegsráðherra. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur staðið við það. Þau loforð sem heimamenn hafa hermt mér, um þau finnst ekki stafkrókur í ráðuneytinu og það eru engar heimildir í lögum til að veita með þessum hætti beinan fjárstuðning, eins og heimamenn segja að sér hafi verið lofað.

Sömuleiðis kannast ég líka við að það var sérstaklega óskað eftir því við Byggðastofnun að veitt yrði hátt lán til þess að koma á fót fiskvinnslu eða styðja fiskvinnslufyrirtæki — sem reyndar fyrirtæki á Tálknafirði og Patreksfirði ætluðu að standa að — með kjörum sem Byggðastofnun hafði ekki heimild til að veita. Því var vísað til fyrrverandi ríkisstjórnar og var ekki afgreitt. Ég hef átt viðræður við þá sem að þeirri ósk stóðu, það var eftir að skerðing þorskveiðiheimilda kom til, og það var sameiginleg niðurstaða að jafnvel þó að það lán fengist með þeim kjörum sem óskað var eftir fyrir kosningar þá væri rekstrargrundvöllurinn því miður brostinn eftir að þorskveiðiheimildir voru skertar eins og við þekkjum.

Það er hins vegar ekki hægt að halda því fram að iðnaðarráðuneytið sem slíkt hafi ekki komið að stuðningi við Bíldudal sérstaklega. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er raunalegt að horfa upp á það hvernig þróun fiskvinnslu hefur orðið þar og það er ekki hægt annað að segja en að ástæðan fyrir því er auðvitað núverandi stjórnkerfi fiskveiða, það er ekkert annað. Það er sama ástæða sem veldur því að með sams konar hætti sytrar blóðið úr mörgum byggðarlögum í sams konar aðstöðu. Það væri hægt að nefna önnur byggðarlög á Vestfjörðum en bara Bíldudal. Ástandið hefur auðvitað ekki batnað eftir að núverandi staða kom upp þar sem reyndist nauðsynlegt að grípa til þessarar tímabundnu skerðingar á þorskveiðiheimildum.

Ég sagði að það væri ekki hægt að halda því fram að iðnaðarráðuneytið hefði ekki með sínum hætti reynt að styðja við uppbyggingu á staðnum. Styrkasta tæki iðnaðarráðuneytisins er Byggðastofnun. Byggðastofnun kom til þegar verið var að brydda upp á nýjum atvinnutækifærum á Bíldudal, þ.e. kalkþörungaverksmiðjunni. Innlendar bankastofnanir fúlsuðu algjörlega við því. Það var Byggðastofnun sem varð hryggjarstykkið í innlendri fjármögnun. Það starf hefur gengið vonum framar, þar eru að verða til 12–15 framtíðarstörf, hugsanlega gætu þau orðið fleiri vegna þess að hráefnið sem unnið er úr hefur reynst vera miklu meira að gæðum en menn áttu von á, það stendur ekki aðeins undir því að verða uppistaðan í dýrafóðri heldur líka sem bætiefni til manneldis. Sömuleiðis hefur Byggðastofnun komið að því að efla sjóstangaveiði sem hefst á þessu ári að tilstuðlan frumkvöðla í Bíldudal og að fordæmi annarra vestfirskra frumkvöðla. Ég bind miklar vonir við það líka.

Á þessum stöðum eru líka tækifæri til þess að byggja upp öfluga ferðaþjónustu á öðrum sviðum og ég vænti þess að iðnaðarráðuneytið muni ekki liggja á liði sínu til þess að styrkja það frumkvæði. Ég nefni eitt mál sem ég veit að einum hv. þingmanni í salnum er mjög kært, Skrímslasetrið. Iðnaðarráðuneytið hefur ekki legið á liði sínu við að styrkja það og styðja við þá viðleitni, en í báðum þessum tilvikum (Forseti hringir.) er um að ræða störf sem ekki tengjast beinlínis sjávarútvegi. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Mér er ekki sá máttur gefinn að ég geti með því að smella fingri skapað þorska í sjónum (Forseti hringir.) sem búið er að veiða.