135. löggjafarþing — 56. fundur,  30. jan. 2008.

stuðningur við fiskvinnslu á Bíldudal.

309. mál
[15:58]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það vill svo til að í gær náðist góð samstaða um það í bæjarstjórn Vesturbyggðar að úthluta byggðakvótanum sem nota á til að efla atvinnulíf á Bíldudal til Perlufisks en því fyrirtæki stýrir harðduglegur athafnamaður og ég bind miklar vonir við að bjartari tímar séu fram undan í því byggðarlagi eftir þá ákvörðun.

Ráðherrann var spurður hvernig hann hyggist koma með beinum hætti að þessum málum. (Gripið fram í.) Beinum stuðningi, já. Mig langar til þess að veita ráðherranum mín ráð í þeim efnum. Í fyrsta lagi, komdu með í þann leiðangur með okkur fleirum að breyta þessum þrælalögum sem stjórn fiskveiða er. Í öðru lagi, taktu þátt í því með okkur, virðulegi forseti, að setja almennilegt fjármagn (Forseti hringir.) til atvinnusköpunar á landsbyggðinni, ekki 100 milljónir heldur 100 sinnum 100 milljónir.