135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[13:42]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er auðsvarað. Núverandi ríkisstjórn hefur það á stefnuskrá sinni að efna til opinnar og fordómalausrar umræðu um Evrópumál og þess vegna eigum við hér núna opna og fordómalausa umræðu um Evrópumál eins og við höfum átt í dag. Ég vil benda hv. þingmanni á að það eru ekki vænlegri stjórnarkostir í boði þegar Evrópumál eru annars vegar. Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hjakkaði hér í miklu fortíðarfari í afstöðu Vinstri grænna til Evrópumála fyrr í dag og auðvitað er það svo að hinn sjö manna þingflokkur Framsóknarflokksins er klofinn í herðar niður í þessu máli. Að minnsta kosti er ljóst að ef maður ætlaði að reiða sig á hv. þm. Bjarna Harðarson til framþróunar í Evrópumálum er ég hræddur um að menn kæmust hvorki lönd né strönd.

Við þær aðstæður er valið auðvitað skýrt. Við þær aðstæður er auðvitað eðlilegt að efna til víðtækrar og (Gripið fram í.) og fordómalausrar umræðu um Evrópumál eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert og auðvitað er það ekki þannig að þetta sé mál sem ræðist í þaula til niðurstöðu á einum degi. En það er hin fordómalausa umræða með þátttöku allra hagsmunaaðila sem skiptir lykilmáli í þessu sambandi vegna þess að ef við ætlum að skapa sátt um þetta mál, sem ég trúi sannarlega að skipti miklu máli, þá skiptir hin opna og fordómalausa umræða mestu. Ég ætla að benda hv. þingmanni á að meiri hluti kjósenda í flestum flokkum kveðst styðja aðild að Evrópusambandinu þannig að þetta er mál sem er í deiglu umræðu alls staðar í samfélaginu og það er sú umræða sem verður að fá að lifa áfram.