135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:37]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra á bls. 23 að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi í fyrra óskað eftir viðræðum við EFTA-ríkin um endurskoðun á bókun við EES-samninginn um viðskipti með unnar landbúnaðarvörur. Norðmenn töldu ekki tilefni til þess að fara í slíkar viðræður en Íslendingar voru fúsir til þeirra og segir í skýrslunni að ákveðið hafi verið að hefja tvíhliða viðræður við Evrópusambandið um slíka endurskoðun og fram undan sé fundur í marsmánuði um það efni.

Nú langar mig að biðja hæstv. ráðherra að gera grein fyrir því að hverju Íslendingar stefna í þessum viðræðum í ljósi þess að allur innflutningur á landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins er tollfrjáls annar en á vörum sem íslenskir bændur framleiða sjálfir, þannig að talsvert mikið af því sem Evrópuríkin framleiða er heimilt að flytja til landsins tollfrjálst. Ég sé ekki að slíkar viðræður geti snúist um neitt annað en að draga úr tollverndinni sem við höfum ákveðið að viðhafa til að styrkja íslenskan landbúnað. Er hér á ferðinni stefnubreyting af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sem hlýtur þá ef svo er að felast í því að hverfa frá því að styðja við bakið á kjötframleiðslunni hér á landi eða mjólkurframleiðslunni?