135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:01]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir ánægjuraddir þingheims með það lofsverða framtak hjá hæstv. utanríkisráðherra að flytja skýrslu um stöðu Íslands á innri markaði Evrópusambandsins og framkvæmd samningsins og það lofsverða framtak er örugglega til þess gert að dýpka og breikka þá umræðu sem nú á sér stað um Ísland og Evrópusambandið og skoða hvernig hefur til tekist á þeim 14 árum sem eru liðin frá því að samningurinn var gerður og tók gildi og hefur haft að sjálfsögðu mjög djúpstæð áhrif á íslenskt samfélag og styrkt það og stórbætt nánast á öllum sviðum hvar sem fæti er niður drepið. Það er fróðlegt að fylgjast með umræðunni núna 14 árum seinna enda eru fáir sem deila um það að samningurinn hafi skilað okkur miklum framförum og bótum á nánast öllum sviðum.

Ég ætla að nefna örlítið þau mál sem inn á mitt ráðuneytissvið koma sem eru neytendamál, samkeppnismál og málefni fjármálamarkaðarins. Til að byrja þá með átti ég fundi með þremur kommissörum eða framkvæmdastjórum Evrópusambandsins í síðustu viku úti í Brussel, framkvæmdastjórum neytendamála, samkeppnismála og innrimarkaðsmála. Ein af þeim sem ég fundaði með var Meglena Kuneva, nýr kommissar neytendamála, og var mjög athyglisvert að fylgjast með þeirri stefnumótun sem á sér stað innan Evrópusambandsins á vettvangi neytendamála og er að ágætu getið í skýrslunni sem við ræðum í dag. Hér segir meðal annars að markmið stefnunnar sé að taka sérstaklega til viðskipta á innri markaði með það að markmiði að á árinu 2013 geti neytendur á Evrópusambandssvæðinu og EES-svæðinu verslað hvar sem er innan svæðisins, hvort sem er í hverfisverslun eða netinu þar sem öryggi og vernd sé hin sama og alls staðar til staðar. Jafnframt að seljendur geti átt viðskipti hvar sem er á svæðinu á grundvelli sömu reglna. Í þessari stefnu eru settar fram 20 aðgerðir, löggjöf og tilmæli sem ráðast á í til að styrkja stöðu neytendamála á Evrópska efnahagssvæðinu öllu.

Margt annað er mjög athyglisvert þar sem við fylgjumst grannt með stendur yfir hjá okkur og snýr að neytendalánum. Eitt af stærstu málum síðustu ára á sviði neytendaverndar er tilskipun um neytendalán sem hefur verið til umfjöllunar á þessum vettvangi í fimm ár og náðist sátt um hana rétt nýverið og er þeirri tilskipun ætlað að tryggja að neytendur séu betur upplýstir þegar þeir taka neytendalán og svo framvegis. Með tilskipuninni eru meðal annars settar samræmdar reglur um upplýsingalöggjöf, rétt til að falla frá kaupum, rétt til uppgreiðslu lána og um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Þessu tengt er einnig í gangi vinna, þó hún sé ekki eins langt komin, um veðlánastarfsemi þar sem framkvæmdastjórnin telur þörf á frekari skoðun og nauðsyn löggjafar meðal annars sem lýtur að uppgreiðslu veðlána er varðar gæði og framsetningu upplýsinga, að tryggt sé að lánveitingar séu ábyrgar svo sem framkvæmd greiðslumats og því sem snýr að uppgreiðslu lána og hreyfanleika neytenda á milli fjármálastofnana. Á fundi mínum með framkvæmdastjóra samkeppnismála bauð ég henni að koma hingað til Íslands og ræða þessi mál. Hún mun koma hingað 4. júlí. Þá munum við halda ráðstefnu um samkeppnismál sameiginlega og munum við þá draga fram ýmislegt sem að því lýtur.

Annað feikilega stórt mál, eins og hæstv. utanríkisráðherra nefndi í framsögu sinni í framsögu sinni í dag, snýr að stærsta viðfangsefninu og einu af því sem er fyrir utan samninginn sem er framtíðarfyrirkomulag gjaldmiðilsmálanna ef svo mætti segja. Hæstv. ráðherra velti því upp hvort krónan verði að verða viðskiptahindrun sem skerti kjör bæði fyrirtækja og almennings. Ég tek eindregið undir það að einhliða upptaka annarra mynta er útilokuð leið. Það var rætt hér töluvert á haustdögum. Ég held að niðurstaðan af þeirri umræðu sé að það sé ekki leið enda skiptir það ekki meginmáli. Það eru aðrar leiðir sem þarf að rannsaka. Það er mjög mikilvægt að rannsaka þessi mál.

Það er líka ljóst að það er ekki salur fyrir því í íslenskum stjórnmálum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er ekki í stjórnarsáttmála og það verður mjög ólíklega gert í nánustu framtíð. Hins vegar er um leið fagnaðarefni hvernig stjórnarsáttmálinn tekur á þessu máli og í dag var stigið skref í þá áttina að fara mjög vandlega yfir þessi mál þar sem skipuð var sérstök Evrópunefnd sem á að fara yfir málin og vakta þessi mál með hv. þingmönnum Ágústi Ólafi Ágústssyni og Illuga Gunnarssyni í forustu og fagna ég því framtaki og tel það skipta heilmiklu máli í þessu ferli öllu.

Þessu tengt ætla ég að greina frá því inn í þessa umræðu — af því að ég held að framtíðarfyrirkomulag gjaldmiðilsmála okkar sé stærsta viðfangsefni íslenskra stjórnmála nú og í nánustu framtíð. Ég er alveg sannfærður um að við þurfum að vanda okkur mjög vel við þá vinnu og halda utan um það. Við sjáum umræðuna sem tengdist núna útrás og vexti bankanna erlendis og hvernig það kallast á við lánshæfi ríkissjóðs og stöðu Seðlabankans gagnvart þeim og aftur umfangi og útrás þeirra og uppgangi sem er ævintýraleg erlendis og siglingin á bönkunum sem hefur verið þar og því hvort krónan sé of lítið myntsvæði fyrir starfsemi þessara stóru banka. Moody's kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki nú, bankarnir og stærð þeirra erlendis raski ekki lánshæfi ríkissjóðs og þeir séu ekki orðnir of stórir núna. Krossgöturnar í lánshæfismati Moody's eru nákvæmlega þær að ef bankarnir vaxa enn frekar erlendis þá geti komið að því að þetta fari að hafa áhrif, þá gæti það bitnað á lánshæfismatinu og þá þurfi jafnvel að grípa til einhverra aðgerða. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að skoða. Viðskiptaráðuneytið ákvað fyrir nokkrum dögum að hrinda af stað rannsóknum á áhrifum tengingar evru á viðskipti, fjármálastöðugleika og samfélagið. Við styrktum rannsóknastofnun í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík, Evrópufræðasetur háskólans á Bifröst og Rannsóknasetur verslunarinnar við þann hinn sama háskóla, til rannsókna á áhrifum aukinnar notkunar erlendra mynta á vörumarkað, fjármálamarkað og samfélagið almennt. Enn fremur er ætlunin að skoða áhrif mismunandi tenginga við evru við nokkra þætti. Meginspurningarnar sem við leggjum upp í þessum rannsóknum eru tvær, hvort á Íslandi sé að verða til fjölmyntasamfélag og hvaða áhrif það hafi á markað og samfélag og í öðru lagi hvaða afleiðingar ólíkar tengingar við evru hafi á íslenskan fjármálamarkað og fjármálastöðugleika. Fyrirhugaðar niðurstöður eiga að liggja fyrir í ágúst á þessu ári í formi skýrslna og rannsóknaritgerða og verða þær að sjálfsögðu kynntar opinberlega og ræddar og reifaðar á vettvangi samfélagsins núna síðsumars. Síðan er hér tiltekið sérstaklega hvernig þessum verkefnum er fyrir komið og tel ég að það geti fært okkur margar mjög nytsamlegar og nauðsynlegar upplýsingar til að ákvarða næstu skref í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins eða annarra ríkja eftir því sem því verður við komið, hvort sem þau mál verða leidd til lykta í bráð eða lengd. Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem þurfa að liggja fyrir þegar kemur að ákvarðanastundu í þessum málum af því að það er niðurstaða, má segja, margra á breiðu sviði eftir umræður síðustu vikna að kostirnir séu í rauninni tveir, annars vegar núverandi ástand, okkar myntsvæði og við að vinnum út frá því, eða aðild að myntbandalaginu, að þetta séu í rauninni leiðirnar tvær. En það er mjög mikilvægt að rannsaka þetta mál til hlítar og kanna áhrifin af því fjölmyntasamfélagi sem hefur orðið til á Íslandi á síðustu missirum án þess að það hafi verið tekin um það einhver ákvörðun að svo verði heldur hefur sú þróun einfaldlega átt sér stað í landamæralausum fjármálaheimi. Við þurfum því að vera viðbúin að bregðast við því hvernig svo sem öðru vindur fram.

Það hefur minna verið fjallað um áhrif fjölmyntasamfélagsins á fjármálastöðugleikann í landinu og það er mjög rík ástæða til að huga sérstaklega að þeim þætti. Alþjóðavæðing bankakerfisins hefur gert það að verkum að íslenskt fjármálakerfi er miklu háðara sveiflum á alþjóðamarkaði en nokkurn tíma áður og hluti þessarar vinnu sem ég var að nefna áðan, þeirri rannsóknarvinnu sem viðskiptaráðuneytið tekur nú þátt í að unnin sé, er að rannsaka áhrif upptöku eða tengingar við evru á íslenskan fjármálamarkað og leitast við að svara spurningunum um þau áhrif og hvaða áhrif sú fjölmyntavæðing sem nú þegar hefur átt sér stað hefur á íslenskan fjármálamarkað og fjármálastöðugleika af því að auðvitað eru þau mjög mikil. Við erum að ræða um vaxtahækkanir og vaxtalækkanir og svo framvegis sem hafa áhrif á mjög afmarkaðan þátt af fjármálamarkaðinum út af aukinni notkun á erlendum myntum, þegar fyrirtækin, 70%, eru að fjármagna sig í erlendum myntum, lántökur almennings til húsnæðiskaupa eru í æ ríkari mæli í erlendum myntum og svo framvegis. Þetta er stórt mál sem er nauðsynlegt að huga að í þessari umræðu.