135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:14]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að fyrstu fréttir af skýrslunni umræddu voru mjög affluttar af efni hennar því niðurstaða skýrslunnar var hins vegar þveröfug. Hún var nákvæmlega sú að bankarnir þyrftu ekkert að óttast hvað þetta varðar, þeir gætu vel starfað hér áfram í því umhverfi sem núna er. Hins vegar væru einu blikurnar eða krossgöturnar þær að ef bankarnir stækkuðu mjög verulega erlendis þá þyrftu menn að skoða stöðuna. Ég tek því undir með hv þingmanni — enda held ég að það hafi verið leiðrétt ágætlega í þinginu í gær af bæði af þeim sem hér stendur og öðrum sem ræddu málið þannig að sá afflutningur var vel til baka tekinn.

Hvað varðar íslensku krónuna, atvinnulífið og lausn á þeim vanda sem nú að steðjar þá er það nefnilega kjarni málsins að umræðan um stöðu gjaldmiðils og framtíðarfyrirkomulag Evrópumála hefur ekkert með það að gera hvernig nú háttar akkúrat í efnahags- og atvinnulífi. Það er aldrei skyndilausn á þeim vanda enda aldrei nokkurn tíma til umræðunnar stefnt með þeim hætti. Hins vegar bar sú umræða sem átti sér stað í haust um einhliða upptöku evru keim af því að það væri einhver „fixídea“ eða skyndilausn að hlaupa frá miðlinum og taka bara upp einhliða annan miðil og þá væri öllu reddað. Sú umræða er sem betur fer frá og, eins og ég sagði, held ég að niðurstaðan af því væri að það sé ekki kostur i stöðunni. Við búum við þetta ástand á okkar myntsvæði og það getum við mjög vel gert og Moody's-skýrslan staðfestir það alveg prýðilega. En það hefur hins vegar ekkert með það að gera að við ræðum ekki framtíðarkostina í stöðunni hvort sem þeir verða einhvern tíma að veruleika eða aldrei, eftir tíu ár eða tuttugu ár. Við þurfum bara að fara yfir þessa stöðu og ég tek undir það sem þingmaðurinn sagði, að við eigum alls ekki að ræða um þessi mál sem lausn á tímabundnum óróa í efnahagsmálum og hvað þá með því að það sé einhver lausn að hlaupa þá frá myntinni og taka upp aðra einhliða. Það er fráleit umræða enda tel ég hana vera frá.