135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[16:13]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér hefur staðið yfir ákaflega áhugaverð og skemmtileg umræða í dag um skýrslu utanríkisráðherra um Ísland á innri markaði Evrópu. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir umræðuna. Það er ólíkt skemmtilegra en þegar þessu var blandað inn í skýrsluna um utanríkismál almennt. Eftir því sem ég hef getað fylgst með, bæði hér inni og úr fjarlægð í gegnum sjónvarpskerfið, hefur þetta verið áhugaverð umræða og margt rætt hér.

Ég ætlaði að nota þær tíu mínútur sem ég hef til umráða til að fara aðeins yfir skýrsluna og það sem í henni stendur og snýr að samgöngumálum. Ég verð þó fyrst að koma aðeins inn á það sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Árni Johnsen, ræddi um, þ.e. tilskipunina sem við ræðum stundum, um akstur og hvíld eða hvíldartímatilskipun.

Því er m.a. velt upp í skýrslunni, og hæstv. utanríkisráðherra hefur beitt sér fyrir, að okkar fólk, í ráðuneyti, fastafulltrúar úti og fólk hér heima — og blandað því svo hér inn til hv. alþingismanna og nefnda — að við þurfum að vera betur á vaktinni í byrjun og koma málum okkar á framfæri strax á frumstigum eins og einnig er rætt hér um og hæstv. utanríkisráðherra tók sem dæmi sem svokallaða grænbók. Þar var ákaflega faglega að verki staðið og forseti framkvæmdastjórnar þakkar okkur Íslendingum sérstaklega fyrir það.

Varðandi aksturstímann sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, þá held ég — hvort það var 1994 eða 1991 — þá hefur oft læðst að mér sá grunur að við höfum ekki staðið vaktina nógu vel þar í byrjun og lýst þeim fyrirvörum sem við höfum viljað hafa.

Ég vil hins vegar segja við hv. þingmann að auðvitað var ákaflega athyglisvert að ýmsir fulltrúar aðila vinnumarkaðarins skuli hafa komið sér saman um niðurstöðu um ýmislegt hvað þetta varðar og þar sem við erum byrjuð að vinna að því að lagfæra sitthvað af því sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni.

En aftur að þessari ágætu skýrslu og umræðu sem hér hefur farið fram. Eins og ég sagði áðan hefur hæstv. utanríkisráðherra beitt sér fyrir því að Alþingi, þingmenn og nefndir, komi meira að þessu máli. Skýrslan er auðvitað liður í því að bæta upplýsingagjöf til alþingismanna og skapa vettvang og þingfundi til að ræða stöðu Íslands í Evrópusamrunanum. Það er auðvitað mjög mikilvægt hagsmunamál og eins varðandi framtíðarþróun Evrópu og hvernig við skulum dansa með í þeim dansi. Með þessu leggur hæstv. utanríkisráðherra sitt af mörkum til þess að auka hlut Alþingis, utanríkismálanefndar og eftir atvikum annarra nefnda þingsins, í ákvörðunum er varða ESB og EFTA.

Vegna þess að ræðutíminn líður hratt hér ætla ég að snúa mér strax að því sem ég fjallaði um og snýr að samgöngumálum. Hér er fjallað um stefnu ESB í málefnum siglinga og sjávar, um þá yfirgripsmiklu stefnumótun sem þar fór fram og unnið var að. Hæstv. utanríkisráðherra gat um í ræðu sinni hvernig það var gert þegar gefin var út grænbók sem m.a. var send út til 40 hagsmunaaðila og kallað eftir umsögnum. Þar var tekið tillit til ýmissa þeirra þátta sem við settum þar inn og lauk með því að forseti framkvæmdastjórnar José Manuel Barroso þakkaði okkur Íslendingum sérstaklega fyrir aðkomu Íslands að málinu og það sem við lögðum þar inn.

Eins og segir í skýrslunni sýnir reynslan að með þátttöku í þessu sambandsferli höfum við góða möguleika á að hafa áhrif á mótun löggjafar á frumstigi. Það vona ég að við, ég og hv. þingmaður sem ræddi áðan um málið, séum sammála um. Ég ítreka að við höfum ekki verið þar á vaktinni á frumstigi og því fór sem fór, því miður. Svo þurfum við að reyna að leiðrétta það núna á næstu mánuðum og sú vinna er í gangi.

Þarna er m.a. talað um aðgerðir gegn sjóræningjaveiðum og brottkasti og ýmislegt kom fram sem tekið var tillit til. Það hefur svo leitt mig að því sem fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, að kallað sé eftir sérfræðingi frá okkur á sviði sjávarútvegsmála til þess að veita ráð og vera framkvæmdastjórn og öðrum þarna úti til halds og trausts.

Þá ætla ég að snúa mér að kafla í skýrslunni sem heitir Rýmkun á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Þann 26. október 2007 var tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2003/87, sem kemur á fót kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda innan ESB, tekin inn í EES-samninginn. Síðan er fjallað um þegar Alþingi fjallaði um málið og til þess að gera langa sögu stutta ætla ég að fara inn á það sem að okkur snýr. Fyrir réttu ári síðan kynnti framkvæmdastjórn ESB tillögu að tilskipun þingsins og ráðsins um að breyta tilskipun 2003/87 um viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda þannig að flugstarfsemi yrði felld undir gildissvið tilskipunarinnar.

Um miðjan nóvember síðastliðinn greiddi Evrópuþingið atkvæði um tillöguna og breytingar við hana. Það er ákaflega athyglisvert fyrir okkur að lesa það sem þar kemur fram, að á Íslandi eru 80 stórar flugvélar á skrá og hefur Flugmálastjórn lauslega áætlað að losun þeirra sé hlutfallslega mun meiri en hjá öðrum ríkjum.

Það sem einnig hefur verið gert og haldið fram — og ég og hæstv. umhverfisráðherra áttum fund þar sem við fórum yfir þá fyrirvara sem við Íslendingar höfum sett fram og utanríkisráðuneytið tók svo upp og hefur fylgt eftir. Til dæmis eru viðmiðunarárin sem þarna eru talin upp mjög óhagstæð fyrir okkur Íslendinga vegna þess að við höfum, eins og á svo mörgum öðrum sviðum, verið mjög framarlega í að endurnýja flugvélar okkar. Við erum komin með sparneytnari og betri vélar, ekki einhverja eyðsluháka og mikla mengunarvalda þannig að kvótinn verður minni.

Rétt er að minnast á atriði sem margir hafa kannski ekki hugsað út í. Á þessum viðmiðunarárum og þegar talað er um hver upphafskvótinn verður þá þekkist ekki hjá okkur Íslendingum að við þurfum að vera með mikið yfirflug og bíða eftir tíma til lendingar. Þau tvö atriði nefni ég bara sem dæmi og voru sett inn í athugasemdir okkar og fyrirvara sem við gerðum. Þar kem ég að því — leita liðsinnis hjá nágrannaþjóðum okkar, norrænu þjóðunum, til að fylgja eftir þessum málefnum.

Auðvitað má spyrja sig hvort það verði gert með nægilega öflugum hætti þegar farið er inn á fundi ráðherraráðs og annað. Við skulum vona að svo sé með alla þá fyrirvara sem settir hafa verið fram.

Hér má einnig lesa um hvernig sú málamiðlun eða tillaga var sem sett var fram um ýmsa fyrirvara jaðarþjóðfélaga og var ekki samþykkt í óbreyttri mynd. Jafnframt er talað um að umhverfisráðherrar Möltu og Kýpur hafi komið fram með breytingartillögu við formennskuríkið um að tekið verði tillit til sérstöðu jaðarsvæða sem eigi að fá aðra valkosti til samgangna en flug. Það segi ég auðvitað vegna þess að við erum það háð flugi, ekki höfum við lestir eða annað til að fara á milli landa — að þetta eru atriði sem þarna verða komin inn.

Þetta er dæmi um, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að við verðum að halda vöku okkar og vera viðbúin að bregðast við hlutum á fyrsta stigi, eins og ég og hv. þm. Árni Johnsen höfum gert hér að umræðuefni. Það er ákaflega mikilvægt vegna þess að margar af þessum tilskipunum erum við skyldug til að taka upp. Margar hafa verið til góðs fyrir land og þjóð og við erum bundin af þeim gagnvart hinum ágæta og góða EES-samningi.

Virðulegi forseti. Aðeins í lokin á þessari mínútu sem ég á eftir. Ég vil geta þess að ég hef skipað stýrihóp um útblásturskvóta í flugi. Það er ákaflega vel samansett nefnd sem er m.a. skipuð fulltrúa úr utanríkisráðuneyti og úr umhverfisráðuneyti, Pétri K. Maack flugmálastjóra og Jóhanni Guðmundssyni, skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu, ásamt Gunnlaugi Stefánssyni sem er formaður flugráðs. Þessari nefnd er ætlað að fara í gegnum þessa þætti og skila okkur skýrslu um hvaða áhrif þetta hefur á íslenska þjóð ef þetta gengur eftir án þess að tekið verði tillit til okkar og landfræðilegrar legu okkar sem er ákaflega mikilvægt

Þetta vildi ég nú leggja inn í umræðuna en ítreka í lokin þakkir til hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa sett skýrsluna um innri markað Evrópu fram með þeim hætti sem gert er í fyrsta skipti. Ég segi líka um þá þingmenn sem hér hafa tekið til máls, að ákaflega fróðleg og skemmtileg umræða hefur átt sér stað í dag þótt séu ekki allir (Forseti hringir.) sammála um gildi ESB eða EES-samningsins. Ég segi líka að margt væri öðruvísi á Íslandi ef Jón Baldvin, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, og fleiri í þeirri (Forseti hringir.) ágætu ríkisstjórn hefðu ekki komið EES-samningnum í gildi á sínum tíma.