135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef nú alltaf haft miklar mætur á Bjarti í Sumarhúsum og fundist hann ein af skemmtilegustu persónum íslenskra bókmennta. Þess vegna voru ekki fólgin í því nein niðrandi ummæli í garð hv. þm. Bjarna Harðarsonar af minni hálfu þegar ég kallaði þar fram í til hans áðan að hann væri okkar líkastur Bjarti í Sumarhúsum, heldur þvert á móti. Ég vildi bara taka þetta fram svo enginn misskilningur yrði um það.

Þær upplýsingar sem koma nú fram í umræðunni um rétt útlendinga til starfa hér, þeirra sem ekki eru frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, koma mér dálítið á óvart. Ég hafði staðið í þeirri meiningu, eins og hv. þm. Bjarni Harðarson, að samningurinn um EES takmarkaði mjög möguleika annarra útlendinga til að sækja hér vinnu.

Ég dreg ekki í efa þær upplýsingar sem hér hafa komið fram og fagna þeim. Ég minni aftur á athugasemdir þær sem ég gerði í umræðum fyrir nokkrum dögum um frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra um atvinnurétt útlendinga. Þar gerði ég athugasemdir við hversu takmarkaðir möguleikar væru fyrir útlendinga utan EES að fá vinnu hér á landi.

Í því frumvarpi er verið að opna glufu fyrir afmarkaðan hóp launþega, fyrir þá sem hafa sérstaka þekkingu sem vantar hér innan lands. Mér finnst sú glufa allt of þröng og ég vil hvetja hæstv. utanríkisráðherra og flokk hans til þess að styðja við þau sjónarmið sem ég hef sett fram og eflaust fleiri þingmenn í þessari umræðu. Ég hvet þau til að nálgast atvinnuréttindi útlendinga utan EES með opnari hætti en gert er. Það er þá hægur vandinn að bæta úr því og rýmka þær reglur sem verið hafa fyrst þetta er algjörlega á valdi okkar og ótengt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Á Vestfjörðum er áratugalöng reynsla af útlendingum sem þangað hafa sótt vinnu í miklu ríkari mæli og fyrr en víðast hvar annars staðar á landinu. Þar býr fólk af ýmsu þjóðerni öðru en því sem nú er innan Evrópska efnahagssvæðisins: Filippseyingar, Taílendingar, Suður-Afríkufólk, Ástralir, Nýsjálendingar og fleiri sem komu til starfa í frystihúsum og sláturhúsum á sínum tíma.

Þetta er upp til hópa afbragðs fólk og engin ástæða til að setja svo stífar skorður eins og raun ber vitni við því að fleiri geti komið til landsins. Ég held að framkvæmdin hafi því miður verið eitthvað í líkingu við það sem hér kom fram áðan, að í raun og veru sé þannig um hnútana búið að menn fái ekki atvinnuleyfi fyrir útlendinga utan EES. Ég vænti þess að hin frjálslyndu viðhorf í þessum efnum eigi sér marga talsmenn þegar að er gáð og fleiri en í Frjálslynda flokknum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og umræðuna sem fram hefur farið. Það hefur margt fróðlegt komið fram. Ég vil segja að lokum, af því umræðan er fyrst og fremst um hinn innri markað Evrópska efnahagssvæðisins, að ekki er alltaf nægilegt fyrir okkur að tryggja framfarir með því einu að sækja löggjöf eða breytingar á reglum til Evrópska efnahagssvæðisins eða Evrópusambandsins.

Aðstæður hér á landi eru því miður oft á þann veg að hinn innri markaður eða samkeppnislögmálin virðast ekki virka með þeim hætti sem ætlast er til og stundum alls ekki. Hér ríkir fákeppni á mörgum sviðum viðskiptalífsins. Hér hafa stór fyrirtæki komist upp með að einoka markað, bola keppinautum út af markaði og því miður virðist sem eftirlitsstofnanir hafi ekki gengið fram af þeim krafti sem skyldi. Mér eru enn þá minnisstæð örlög forstjóra Samkeppnisstofnunar heitinnar, sem þarf svo sem ekki að tíunda hér, eftir að stofnunin hafði gert innhlaup í olíufélögin og upplýst um samráðið sem þar var framið gagnvart neytendum landsins á sínum tíma.

Neytendur verða að geta treyst því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að samkeppnislögmál og markaðslögmál gildi hér á landi. Það held ég að sé (Forseti hringir.) kannski verðugasta verkefni þessarar ríkisstjórnar, að vinna að því frekar og tryggja (Forseti hringir.) að þau lögmál virki mun betur víðar en raunin hefur verið.