135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra.

347. mál
[17:14]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs vegna þess að enginn annar er á mælendaskrá og til að taka undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um hve fráleitt það er að hér fari fram umræða um mjög mikilvæg hagsmuna- og réttindamál, í þessu tilviki sjónskertra, án þess að til staðar séu fulltrúar í þeirri nefnd sem um málið fjallar eða sá ráðherra sem málaflokkurinn heyrir undir.

Ég vil reyndar taka fram að í þessu tilviki er hér til staðar hv. þm. Pétur H. Blöndal sem ævinlega stendur vaktina. Þó að við séum nú ekki alltaf sammála í málflutningi og málatilbúnaði þá verður ekki um hann sagt annað en að hann standi vaktina fyrir sjónarmið sín.

Mér finnst eðlilegt að þegar verið er að fjalla um mál eins og hér um ræðir, og reyndar alla málaflokka, séu ævinlega formenn viðkomandi nefnda og ráðherrar í þeim málaflokki sem málið heyrir undir. Þetta er nokkuð sem við munum að sjálfsögðu taka upp við stjórn þingsins. Það var látið í veðri vaka að breyting yrði gerð hvað þetta snerti. Stigið var mjög mikilvægt framfaraskref að því leyti að taka málaflokka heildstætt, að málefni hæstv. heilbrigðisráðherra komi á dagskrá einn daginn og hæstv. fjármálaráðherra annan daginn o.s.frv., að því tilskildu að viðkomandi ráðherrar væru viðstaddir umræðuna. Svo er ekki og ég tek undir þá gagnrýni sem fram hefur komið hvað þetta snertir.