135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

krabbamein í blöðruhálskirtli.

334. mál
[14:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er sett það markmið að lækka dánartíðni af völdum krabbameins hjá fólki yngra en 75 ára um 10%. Til þess á m.a. að beita skipulagðri krabbameinsleit og eftirliti með áhættuþáttum og eins og við höfum hér fjallað um í fyrri fyrirspurn eykur góður árangur hópleitar bjartsýni á því að hópleit að öðrum sjúkdómum, m.a. ristilkrabbameini sem við vorum að ræða áðan og því meini sem hér er spurt um, blöðruhálskirtilskrabbameini, að með því megi fækka dauðsföllum og bæta lífsgæði og batalíkur.

Blöðruhálskirtilskrabbamein hefur tvöfalt hærri dánartíðni hjá körlum en ristilkrabbamein og er algengasta krabbameinið sem hrjáir karla. Það er ekki öllum sem er þetta ljóst en ýmsir fræðimenn telja sig hafa fundið tengsl milli brjóstakrabbameins og blöðruhálskirtilskrabbameins. Ég ætla ekki að fara út í þær kenningar hér en það er sláandi að samkvæmt tölum sem fyrir liggja um tíðni þessara sjúkdóma á árunum 1998–2002 eru að jafnaði greindir 164 karlar hér á landi árlega með blöðruhálskirtilskrabbamein en 164 konur með brjóstakrabbamein, það er nákvæmlega sami fjöldi. Eins og ég segi, þetta er algengasta krabbamein sem hrjáir karla.

Nýlega hefur orðið nokkur vakning í umræðu um þetta mein og einnig framfarir í greiningartækni og meðferð sem allt vekur vonir um að hér sé eitthvað gott að gerast. Ég vil nefna stofnun Krabbameinsfélagsins Framfarar, félagið heitir Framför, sem var stofnað á síðasta ári, m.a. til þess að styrkja rannsóknir á orsökum þessa krabbameins og til þess að stuðla að almennri fræðslu um meinið og hvetja karlmenn til þess að fara í skoðun eftir fimmtugt.

Blöðruhálskirtilskrabbamein er vaxandi vandamál í öllum hinum vestræna heimi og menn hafa lengi reynt að finna rannsóknaraðferðir sem geta greint þá einstaklinga frá sem hafa hratt vaxandi sjúkdóm, m.a. til þess að geta boðið skipulega leit. Nýjar greiningaraðferðir virðast handan við hornið, í nýrri frétt frá Cancerfonden í Svíþjóð kemur fram að með DNA-prófi megi greina þann hóp karla sem er fjórum til fimm sinnum líklegri til þess að fá þetta mein en aðrir.

Ég tel nauðsynlegt, ekki síst í ljósi þess undirbúningsstarfs sem nú er hafið vegna ristilkrabbameins, að spyrja nú þegar boða á 60–69 ára karla og eldri í skoðun, hversu margir greinist hér árlega með blöðruhálskirtilskrabbamein og hvort ráðherra hafi áform um að koma á skipulagðri leit að því meini.