135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

málefni fatlaðra.

357. mál
[15:02]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn. Þjónusta við fatlaða er nærþjónusta og á þess vegna að vera á hendi sveitarfélaganna að mati okkar í Samfylkingunni. Eins og hæstv. ráðherra benti á er mikil vinna í gangi við að koma þessari þjónustu yfir til sveitarfélaganna. Þjónustan, t.d. á Hornafirði, Akureyri og í Skagafirði, er til fyrirmyndar. Þar voru náttúrlega reynslusveitarfélög og síðan þjónustusamningar.

Rekstrarformin eru í dag fjölbreytileg. Verið er að vinna í samstarfi við félagasamtök. Verið er að vinna í samstarfi við einkafyrirtæki sem veita þjónustu við fatlaða. Meginforsendan fyrir því að einkaaðilar taki að sér þjónustu sem hið opinbera greiðir fyrir er að hún kosti ríkið ekki meira, sé jafnhagkvæm og uppfylli gæðakröfur og að gerðir séu um hana samningar sem geti um alla þá þjónustu sem ber að veita og hvernig (Forseti hringir.) henni skuli fyrir komið.