135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

málefni fatlaðra.

357. mál
[15:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Rósa Guðbjartsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra greinargóð svör og fagna því innilega, sem fram kom í máli hennar, hve langt þetta mál er komið. Það er mikið fagnaðarefni. Verkefnisstjórn hefur starfað ötullega heyri ég og virkilegur skriður er kominn á málið. Ég veit að sveitarfélögin eru mörg hver orðin tilbúin til að undirbúa þessi mál og þau stærstu eru jafnvel komin af stað í því.

Þessi tilfærsla er mjög brýn, við viljum gera öll samskipti auðveldari og persónulegri fyrir fatlaða og aðstandendur þeirra. Mikil undirbúningsvinna verður að eiga sér stað í sveitarfélögunum eins og hér hefur komið fram. Margir óvissuþættir eru varðandi kostnaðarmat og annað eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Verið er að meta kostnað við verkefnið og mikilvægt er að ákveða hvaða tekjustofnar muni fylgja. Vonandi verður tilfærslan til þess að biðlistar eftir þjónustu minnka eða hverfa jafnvel á einhverjum árum.

Varðandi þau tækifæri sem ég nefndi í fyrri ræðu minni, hvort í þessum flutningi geti falist tækifæri til að stokka kerfið meira upp en nú er, og hvort svigrúm gefist til fjölbreyttari rekstrarforma en nú er, langar mig að benda á þann möguleika hvort hægt sé að veita eitthvert svigrúm til að skapa þeim sem áhuga hafa á frekari tækifæri til að taka að sér einstök verkefni.

Við höfum séð hvað er að gerast í skólakerfinu. Þar hafa komið upp sjálfstætt starfandi fyrirtæki og tekið að sér rekstur skóla (Forseti hringir.) með frábærum árangri, árangri sem felst ekki síst í áhuga foreldra á að hafa fjölbreyttara val um skóla fyrir börn sín. (Gripið fram í: Áslandsskóli?) (Forseti hringir.) Hjallastefnan, við skulum segja það. Ég tel að innan þessa málaflokks geti skapast mýmörg tækifæri í þá veru. Á þessu sviði er (Forseti hringir.) fagfólk sem langar að veita þjónustu sem það getur ekki gert innan opinbera kerfisins eins og það er í dag.