135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:26]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram, ég held að hún sé afar mikilvæg. Við erum að tala um grundvallaratriði í uppbyggingu landsbyggðarinnar, möguleika á að tengjast internetinu og að hafa trygga GSM-þjónustu. Ég vil líka þakka hæstv. samgönguráðherra, sem þrátt fyrir allt, þrátt fyrir fullyrðingar um að þetta gangi hægt o.s.frv. hefur tilkynnt að í lok þessa árs verði allt landið með tryggt GSM-samband og jafnvel 80–100 km út á sjó. Þetta stefnir því allt saman í rétta átt.

Mér þótti mjög athyglisvert í framsögu hv. málshefjanda að þar kom fram að 2001–2007 hefði verið heldur misheppnað tímabil, þ.e. að þá hefði verið tekin ákvörðun um ISDN og sú tækni hefði ekki einu sinni dugað 2001 og því síður 2008. Ég get tekið undir það, en það er ekki hægt að nota það til þess að skamma hæstv. samgönguráðherra. Hæstv. samgönguráðherra hefur brugðist ágætlega við, hann reynir að keyra þetta mál fram og á þann hátt að það komi landsbyggðinni sem best.

Það er hins vegar rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að líklega hefðu möguleikar okkar og tækifæri til þess að gera þetta enn hraðar verið betri ef grunnnetið hefði ekki verið selt með Landssímanum. Það hefði getað verið lykilatriði og þá hefði verið hægt að byggja grunnnetið og þessa þjónustu meira upp á byggðalegum forsendum en markaðslegum, eins og nú er verið að gera. Við misstum reyndar af því tækifæri, við í Samfylkingunni vorum á þeim tíma einarðlega þeirrar skoðunar að ekki ætti að selja grunnnetið með. Það var hins vegar gert og nú verðum við að halda áfram (Forseti hringir.) að byggja á þessum grunni og mér sýnist hæstv. samgönguráðherra takast það mjög vel.