135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef haft fyrir reglu að fagna því þegar rætt er um heilbrigðismál. Af hverju? Jú, það er afskaplega mikilvægt að ræða þau með málefnalegum hætti.

Það verður að segjast eins og er að það er orðin regla hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að skrökva í hvert einasta skipti sem hann opnar munninn um heilbrigðismál hér í ræðustól, (Gripið fram í: Færðu rök fyrir máli þínu.) það er nokkurn veginn almenn regla. (Gripið fram í.) Ég tala nú ekki um þá reglu hans að kalla fram í í hvert einasta skipti sem einhver vogar sér að gagnrýna hann. Hv. þingmaður fær rök.

Hann sagði enn og aftur að niðurskurður væri í fjárveitingum til spítalans. Hrein og klár ósannindi. Hann sagði að verið væri að fresta Landspítalabyggingunni. Það hefur aldrei verið tekin nein ákvörðun um það. Svo ætla ég að láta liggja á milli hluta allar dylgjurnar sem hér eru.

Það er sjálfsagt að fara yfir heilbrigðismálin, alveg sjálfsagt, og við skyldum ræða þau mál vel. Við erum sammála um markmiðin og við þurfum að fara vel yfir leiðirnar. (Gripið fram í.) Það á hins vegar ekki, virðulegi forseti, að reyna að stimpla hér inn, með því að segja þau nógu oft, ósannindi. Það er langt því frá að við Íslendingar höfum verið að skera niður í fjárlögum til heilbrigðismála, langt því frá, og allra síst til Landspítalans.

Í umræðunni um einkaframtak og fjölbreyttara rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni hamra menn vísvitandi á hugtakinu einkavæðing. Ég segi vísvitandi vegna þess að mér þykir augljóst að tilgangurinn sé sá einn að afvegaleiða umræðuna með villandi upplýsingum og rangri notkun hugtaka. Almennur skilningur á hugtakinu einkavæðing er sá að þar sé um að ræða sölu á opinberri stofnun, fyrirtæki eða öðrum opinberum eignum til einkaaðila og í kjölfarið komi hið opinbera hvergi nærri viðkomandi rekstri. Við ræðum þau markmið ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að skapa svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustunni, m.a. með útboðum og þjónustusamningum þar sem jafnframt verður tryggt að allir hafi jafnan aðgang að þjónustunni. Með slíku einkaframtaki eða einkarekstri er einstaklingunum falinn rekstur á tiltekinni þjónustu sem eftir sem áður er greidd úr opinberum sjóðum.

Hér skyldi öllum vera ljóst að einkarekstur sem greiddur hefur verið úr opinberum sjóðum er og hefur verið snar þáttur innan íslenska heilbrigðiskerfisins um áratugaskeið. Nægir þar að nefna ýmsar öldrunarstofnanir, endurhæfingarstöðvar, einkareknar læknastofur og heilsugæslustöðvar. Heilbrigðisþjónusta sem veitt er af öðrum aðilum en ríki og sveitarfélögum nemur u.þ.b. 25% af veittri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og eru það sjálfseignarfélög og samtök eins og Karítas, SÁÁ, Endurhæfingarstöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Krabbameinsfélag Íslands, Hjartavernd, Reykjalundur, Rauði kross Íslands, Heilsugæslan í Salahverfi og Læknavaktin svo einhver dæmi séu nefnd um slíka þjónustu. Starfsemi þessara aðila hefur alla tíð verið fjármögnuð úr opinberum sjóðum og öllum sem á þurfa að halda tryggður aðgangur að þeirri þjónustu þeim svo gott sem ef ekki algjörlega að kostnaðarlausu. Ég vil ítreka þennan grundvallarmun á einkavæðingu og einkarekstri. Einkarekstur þjónustu hefur ekki áhrif á aðgengi eða jöfnuð notenda.

Hv. þingmaður spyr hvernig ráðherra réttlæti útvistun á störfum læknaritara. Ég vil taka það fram í upphafi að verkefnið sem hér um ræðir er alfarið á höndum stjórnenda LSH eins og annar rekstur þeirrar stofnunar. Höfum það í huga að Landspítalinn er af sambærilegri stærð og Icelandair flugfélagið ef við förum í veltutölu, 33 milljarða. Stjórnendur LSH hafa bæði þá þekkingu á rekstrinum sem til þarf og reynslu af því að semja um ýtrustu verkefni innan þeirra reglna og laga sem gilda um samninga almennt og meðferð upplýsinga sérstaklega.

Ég tek dæmi um slíka útvistun þar sem vel hefur tekist til. Í nóvember 2005 hófust með leyfi heilbrigðisráðuneytisins samningar við Art Medica sem annast tæknifrjóvganir á Íslandi og er í eigu íslenskra lækna sem lengst hafa verið með þessa starfsemi innan veggja spítalans. Þannig er líka háttað með sjúkraþjálfun fjölfatlaðra í Kópavogi, einkarekstur er á flutningi blóðs á milli Blóðbanka og spítalans, samningur hefur verið gerður um ræstingu á spítalanum, að stórum hluta verkefni sem hefur verið útvistað, að ógleymdri tölvuvinnu og ýmsu öðru.

Nú er í skoðun það verkefni hvort standa megi betur að færslu sjúkraskráa. Öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar við sjúklinga gerir nú vaxandi kröfur til reglubundinnar skráningar upplýsinga með kerfisbundnum hætti. Innsláttur upplýsinga af þessu tagi er nákvæmnisvinna og krefst einbeitingar. Þetta verkefni fellur mjög illa að starfsumhverfi sjúkrahússins og hefur það komið hvað gleggst fram á bráða- og slysadeildum spítalans. Því er nú farið að athuga nýjar leiðir í þessum efnum sem betur geti tryggt að óskráð mál safnist ekki upp eins og nú er og gæði og öryggi (Forseti hringir.) skráningar sé samkvæmt bestu stöðlum. (Forseti hringir.) Eftir þessu er verið að vinna, hv. þingmaður, af forsvarsmönnum spítalans og ég treysti þeim vel til að gera það.