135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:12]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, formaður Framsóknarflokksins, hv. 3. þm. Suðurlands, er gamansamur. Það er mjög mikilvægt í stjórnmálum að geta haft skemmtan af því sem gert er. Ég lýsti því í ræðu minni hvaða ákvarðanir voru teknar og hv. þm. Guðni Ágústsson ber ábyrgð á því með mér að við mörkuðum þá stefnu að byggja upp samgöngukerfið og nýttum til þess alla hugsanlega fjármuni. Við gerðum ekki ráð fyrir því að Vegasjóður greiddi niður skuldirnar hjá Speli heldur yrði haldið áfram að innheimta gjaldið. Það var sú niðurstaða sem við hv. þingmaður komust að.

Ég geri ráð fyrir því að á næstu missirum komi fram ný samgönguáætlun. Þá gefst færi á því að taka nýjar ákvarðanir. Við skulum sjá hvað setur með það. Vonandi höfum við mikla fjármuni til að nýta í uppbyggingu samgöngukerfisins. Við þurfum á því að halda til að gera samfélagið hagkvæmara og bæta hag Íslendinga því flutningskostnaður í landinu er geysilega hár. Þess vegna þurfum við að nota alla fjármuni sem við mögulega getum til þessa.

En það er alveg ljóst að ef við ætlum að taka þá ákvörðun sem hér er velt upp, að ganga til samninga og leysa Spöl upp, greiða þær skuldir, þá þarf að fresta einhverjum framkvæmdum í staðinn. Þá standa menn frammi fyrir því að koma með tillögur um hverju eigi að fresta. Eigum við að fresta því að tvöfalda Suðurlandsveginn og greiða í staðinn upp skuldir hjá Speli? Eigum við að gera það? (Gripið fram í.) Spyr sá sem ekki veit. Ég er ekki að leggja það til.