135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

kaupréttarsamningar.

[15:24]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þótti þetta afar athyglisvert svar þar sem hæstv. viðskiptaráðherra telur að lögin séu nógu skýr í þessu efni, þ.e. að ekki sé heimilt að hafa þennan hátt á við launagreiðslur. Mér þykir það afar áhugavert svar hjá hæstv. ráðherra vegna þess að ég lít svo á og tek undir með Vilhjálmi Bjarnasyni sem segir í Fréttablaðinu í morgun að lög eigi ekki að vera upp á punt, heldur eigi að fara að þeim. Ég mun því eins og ráðherrann fylgjast spennt með því máli sem nú fer fram.

Þetta færir okkur auðvitað alltaf að sömu umræðunni, þ.e. þessari ofurlaunaumræðu og því sem hefur gengið á í viðskiptalífinu þar sem okkur hefur misboðið þær launagreiðslur sem þar hafa viðgengist. En ég verð þó segja, virðulegi forseti, að það er þó heiðarlegra að koma með 300 millj. kr. eingreiðslu en marga þá kaupréttarsamninga sem gerðir hafa verið og færðir mönnum í aðra höndina. Það er þó heiðarlegra að hafa hlutina uppi á borðinu (Forseti hringir.) en fela launagreiðslur í svona ósanngjörnum kaupréttarsamningum.