135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:01]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum athyglisverða ræðu og mér er ljúft og skylt að upplýsa það að allt sem krefst lagabreytinga í aðildarlöndunum er samþykkt með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni og slíkum fyrirvara er ekki aflétt fyrr en lög hafa verið sett hér á Alþingi. Sá fyrirvari sem hv. þingmaður kallaði eftir er því á þessari gerð.

Annars vil ég taka undir það með hv. þingmanni að auðvitað þurfum við svigrúm í slíkum innleiðingum. Ég tel miklu heppilegra að í flestum ef ekki í öllum tilfellum sé um að ræða lágmarkstilskipanir sem gefa okkur slíkt svigrúm. En staðan er hins vegar sú að allar tilskipanir núna sem snúa að neytendaverndinni kveða á um fulla samræmingu. Það er byggt á dómi og þar er notuð 95. gr. Rómar-sáttmálans, hann er notaður í því tilfelli og dómur sem gekk upphaflega vegna tóbaksvarnamála. Þess vegna hlýtur það að kalla á stjórnskipunarlegar spurningar eins og þingmaðurinn vék hér að áðan um grátt svæði og þessu var mótmælt af Íslands hálfu á sínum tíma. Það verða aðrir að segja til um það.

En EES-samningurinn veitir okkur ekki vernd, ef svo má segja, gagnvart þessu. Það sem við getum gert er að samþykkja allt sem krefst lagabreytinga með stjórnskipulegum fyrirvara í EES-nefndinni. Það er svo langt sem samningurinn gerir okkur kleift að ganga í slíkum gerðum sem þessum þegar um er að ræða fulla samræmingu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svo er en samt sem áður eitt af fyrstu skiptunum. En greinilega er vaxandi tilhneiging til að þær séu svo gerðar, tilskipanirnar. Það hlýtur líka að vekja upp lýðræðislegar spurningar um aðild okkar að samningi og öðrum málum (Forseti hringir.) þar sem við erum ekki aðilar að lagagerðinni sjálfri í gegnum samninginn.