135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:55]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur kærlega fyrir að taka þetta mál upp og gefa okkur þar með þetta góða tækifæri til þess að ræða um stefnu Samfylkingarinnar hvað varðar kjör og aðbúnað kennara. Hún las upp úr stefnu Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar. Eins hv. þingmaður heyrði líka á máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, þá hefur þessi stefna einmitt ratað inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Það var ekki erfitt að ná því í gegn vegna þess að þar var viljinn nákvæmlega sá hinn sami.

Ég fagna því mjög orðum hæstv. ráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, vegna þess að hún var akkúrat að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar það að við þurfum að hækka laun kennara og hinna hefðbundnu kvennastétta í landinu þótt fyrr hefði verið.

Það er bara þannig, virðulegi forseti, eins og hæstv. ráðherra komst að orði, að hinar hefðbundnu kvennastéttir og umönnunarstéttir hafa dregist aftur úr í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, þeirri sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir átti sæti í, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Á þessu ætlar núverandi ríkisstjórn að taka með því að hvetja til þess að laun þessara stétta verði hækkuð. Ég fagna því verulega, virðulegi forseti, og veit að stefnan og hugurinn liggur til þess. Auðvitað grípum við ekki beint inn í það ferli sem í gangi er en hugur ríkisstjórnarinnar er algjörlega skýr.

Virðulegi forseti. Ég vil líka draga það betur fram sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson nefndi að þegar Samfylkingin hefur haft til þess tækifæri þá höfum við sýnt það í verki að við fylgjum því að kjör þessara stétta hækki. Hann nefndi hér hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sem sýndi það í verki þegar Samfylkingin fór með völdin í (Forseti hringir.) borginni, þá var einmitt horft til þessara hópa og því munum við halda áfram, hvort sem er á þingi eða í (Forseti hringir.) sveitarstjórnum.