135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:22]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Samtök atvinnulífsins hafa í tilboði sínu til Starfsgreinasambandsins lagt línurnar fyrir ríkisstjórn Íslands. Númer eitt: Launastefna ríkisins má ekki vera frábrugðin því sem þeir nú bjóða, sem er samningur til þriggja ára og 4% hækkun launa á þessu ári. Samkvæmt þessari dagskipun má enginn hækka meira, enginn, ekki heldur þær stéttir sem hafa setið eftir og eru í stórum stíl að flýja umönnunarstörf í leikskólum, skólum og í heilbrigðisþjónustu, stéttir sem upp til hópa eru skipaðar konum sem hafa fengið nóg af ómanneskjulegu álagi og skítakaupi. Afsakið orðbragðið, frú forseti.

Númer tvö í dagskipuninni er þetta: Ríkið á að greiða fyrir byggingu þriggja álvera með tilheyrandi náttúruspjöllum, álver á Bakka, álver í Helguvík og stækkun í Straumsvík. (Gripið fram í.) Hvar hafa þessir menn verið? Misstu þeir kannski af því að Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins í Straumsvík síðasta vor? Misstu þeir kannski af kosningunum og umræðunum í þeim? Það er greinilegt að Samtök atvinnulífsins hafa ekki frekar en aðrir landsmenn orðið varir við að aðkoma Samfylkingarinnar að ríkisstjórn hafi einhverju breytt. Þeir horfa því til óbreyttrar sveltistefnu í velferðarkerfinu og til óbreyttrar stóriðjustefnu og telja að nú þegar hægir á stríðsdansinum í kringum gullkálfinn sé kominn tími til þess að efna í nokkur álver til viðbótar og koma í veg fyrir raunverulegar kjarabætur í samfélagsþjónustunni.

Auglýst var eftir afstöðu Samfylkingarinnar í útvarpinu í morgun til kjaramála kennara. Ég auglýsi hér eftir afstöðu Samfylkingarinnar til dagskipunar Samtaka atvinnulífsins. Ætlar Samfylkingin að svíkja kosningaloforðin um bætt kjör þessara hópa? Voru þau bara orðin tóm rétt eins og Fagra Ísland?