135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:31]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir því á næstu dögum vonandi að leiða kjarasamninga til lykta. Ríkisstjórnin mun hafa, geri ég ráð fyrir, aðkomu að því þegar samningsaðilar eru tilbúnir að leita til okkar.

Hvert innihald aðgerða ríkisstjórnarinnar verður nákvæmlega hvorki get ég né vil segja neitt ákveðið um á þessu stigi og það er ekki eðlilegt að ætlast til þess. Auðvitað koma lagabreytingar og önnur efnisatriði til umfjöllunar hér á Alþingi þegar þar að kemur.

Hið jákvæða við samningana er, eins og sagt hefur verið frá í fjölmiðlum, að nú á að gera sérstakt átak til að lyfta þeim lægst launuðu og bæta kjör þeirra, einkum þeirra sem ekki hafa notið þess launaskriðs sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði undanfarin ár á samningstíma yfirstandandi samninga. Það er alveg ótrúlega jákvæð niðurstaða, ef hún næst, að geta náð slíku fram í góðu samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins án þess að þeir sem meira hafa borið úr býtum mögli sérstaklega yfir því. Hún er mjög til eftirbreytni þegar síðan kemur að samningum við opinbera starfsmenn.

Þingmaðurinn spurði: Hvað með aldraða og öryrkja og þá hópa? Það er ekki langt síðan að ríkisstjórnin kynnti sérstakar aðgerðir í þágu þessara hópa og frumvarp kemur inn í þingið á næstu dögum þar sem því verður fylgt eftir sem breyta þarf í almannatryggingalögum vegna þess. Þessi mál eru því öll í vinnslu.

Hv. þm. Guðni Ágústsson á sér draum. Hann er sá að ríkisstjórnin vakni. Maður sem á sér draum er sjálfur sofandi en ríkisstjórnin er vakandi.