135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[15:58]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tel að ákaflega þörf umræða hafi farið fram í dag um ábendingar í skýrslu umboðsmanns Alþingis. Þegar skýrslan var lögð fram kallaði ég eftir meiri umræðu um málið, mér fannst á þeim tíma að fáir hv. þingmenn tækju almennan þátt í umræðum um ábendingar umboðsmanns. Eins og hæstv. forsætisráðherra gat um er margt í þessari skýrslu sem ber að taka mið af og ábendingarnar mjög gagnlegar.

Stjórnsýsla okkar þarf auðvitað alltaf að vera í endurskoðun. Opinber stjórnsýsla er þess eðlis að við þurfum að taka mið af breytingum í samfélaginu. Hún þarf að taka mið af því. Eins og hæstv. forsætisráðherra sagði, þurfa ráðherrarnir að sjálfsögðu að starfa í anda laganna. En það er ekki það sem umboðsmaður gagnrýnir í skýrslu sinni. Þeir samningar sem vísað hefur verið til og hafa verið ræddir hafa verið undirritaðir með fyrirvara um samþykki Alþingis, sem ég tel fullkomlega eðlilegt.

Ég verð að segja að ég skildi ekki alveg hvað hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir var að fara þegar hún talaði um fjölmiðla og þingmenn. Ég hélt að það væri nú eðli okkar starfs að vilja vera í kastljósi fjölmiðla og vekja athygli á þeim verkum sem við vinnum og sérstaklega á góðum verkum. Mér finnst fullkomlega eðlilegt, hvort sem það eru ráðherrar, sveitarstjórnarmenn eða framkvæmdastjórar, að fjölmiðlar séu kallaðir til þegar samningar eru undirritaðir.

Við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir stóðum í mörg ár sameiginlega að meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur sem lét ekkert tækifæri ónotað til að kalla til fjölmiðla þegar skrifað var undir góða samninga. Ég skil ekki alveg hvernig það kemur þessu máli við. Aðalatriði málsins er að hér eru ábendingar frá umboðsmanni Alþingis sem ber að taka alvarlega og nota til að bæta stjórnsýsluna.