135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

brunavarnir.

376. mál
[18:56]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessi orð. Ég er þess alveg fullviss að við munum á sátt í þessu máli. Í fljótu bragði verð ég þó að segja það að ég get ekki séð að sú sátt muni felast í því að þetta verði lögbundið hlutverk slökkviliða.

Samstarf þeirra slökkviliða, sem hafa einhverja getu að gagni, og björgunarsveita hefur ekki verið mjög mikið. Það hafa kannski ekki verið mörg verkefni, eins og ég talaði um áðan, sem hafa skarast. En að því leyti tel ég að björgunarsveitirnar vilji hafa skýrt í framtíðinni að þessi verkþáttur sem þær hafa búið sig upp í og þjálfað sig í á undanförnum árum, og hafa náð mjög góðum árangri með, hafa á mjög sterkri sveit að skipa, verði á þeirra ábyrgð. Þannig yrði um hnútana búið að þau sinni þessu hlutverki áfram eins og hingað til hefur verið.

Björgunarsveitirnar starfa í flestum sínum verkefnum undir stjórn lögreglu og á ábyrgð lögreglu og eru kallaðar í verkefni á vegum lögreglu og þannig tel ég að þessu væri best fyrirkomið í framtíðinni.