135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

tilkynning frá ríkisstjórninni.

[14:04]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að hafa það í huga við þessa umræðu að þrátt fyrir gerð kjarasamninga er það enn þá svo að lægstu taxtar og lægstu bætur almannatrygginga duga ekki fyrir framfærslu. Við náðum ekki þeim markmiðum við gerð þessara samninga að koma fólki sem býr við lægstu kjörin í þjóðfélaginu upp fyrir fátæktarmörk.

Það er vissulega rétt áhersla hjá forustumönnum launþega á almennum vinnumarkaði að velja þá leið að hækka lægstu kauptaxtana mest og láta þá hópa sem notið hafa launaskriðs og eru með betri launakjör bíða. Ný aðferð er launaþróunartrygging út samningstímann sem er einnig metin fyrir árið 2007 ef hækkun er minni en 5,5% fyrir það ár. Í þessari útfærslu fæst nokkur launatrygging fyrir þá sem oft hafa setið eftir og ekki notið launaskriðs eða hækkunar á almennum vinnumarkaði. Spyrja má hvort ekki sé líklegt að þessi launaþróunartrygging bætist inn í samninga opinberra starfsmanna og komi til viðbótar við stofnanaþáttinn sem er í þeim samningum, eða munu samningamenn ríkis og sveitarfélaga leggjast gegn launaþróunartryggingu í opinbera geiranum í ljósi þess m.a. að þeir samningar eru öðruvísi, þeir eru byggðir upp á stofnanasamningum eins og ég sagði áðan og einnig er svokölluð vörpun þekkt vinnuaðferð í því launakerfi, nokkurs konar eftiráleiðrétting við hækkun launa?

Of mikil sjálfvirkni í hækkun launa til viðbótar við gerðan kjarasamning getur vissulega orðið að sjálfvirkri launaskrúfu og það þarf að skoða sérstaklega í öllum launakerfum. Við höfum áður upplifað slíkt hér á landi. Hvaða svör vill hæstv. forsætisráðherra eða t.d. hæstv. fjármálaráðherra gefa við þessum spurningum? Hvernig hyggjast þeir horfa til þeirra kjarasamninga sem fram undan eru á opinberum vinnumarkaði? Þar er vissulega þörf á ýmsum launaleiðréttingum eins og margir vita hjá stéttum sem eru afar nauðsynlegar í þjóðfélaginu.

Skattleysismörkin í dag eru enn þá innan við 100 þús. kr. þrátt fyrir hækkun á persónuafslætti 1. janúar sl. Við getum spurt okkur þegar við skoðum þessa hækkun, sem vissulega er há í prósentum á lægstu laun: Hvað verður eftir af 18 þús. kr. greiðslunni við núverandi útfærslu, þ.e. þeirri greiðslu sem á að koma strax hjá þeim sem lægst hafa launin og ekki hafa notið launaskriðs? Ef við skoðum hver er rauntekjuaukning láglaunahópanna sem fá þessar 18 þús. kr. er niðurstaðan sú að af þessari upphæð fara þúsund krónur í lífeyrisgreiðslur, síðan fara 6 þús. kr. í tekjuskatt og þegar upp er staðið og búið er að taka tillit til gjalda til verkalýðsfélags og fleiri gjalda sem launþeginn greiðir heldur hann eftir 10 þús. kr. af þeim 18 þús. kr. sem um var samið. Það er það sem við stöndum uppi með og skattbyrðin gefur sem sagt ekki meira af sér í buddu launþegans.

Útfærslan um sérstakan persónuafslátt á lágar tekjur eins og ASÍ lagði til, sem er reyndar sama tillagan og við frjálslyndir höfum lagt til, við lögðum það til í sérstöku þingmáli á þessu þingi, var miklu betri útfærsla fyrir lágtekjufólkið en sú leið sem ríkisstjórnin velur að fara. Eins og menn muna væntanlega hafnaði ríkisstjórnin því að fara þá leið sem ASÍ lagði til síðastliðið haust og í upphafi þessa árs, að hafa sérstakan persónuafslátt fyrir lágtekjufólk sem síðan eyddist út eftir því sem tekjurnar hækkuðu. Það hefði þýtt mun meiri rauntekjuaukningu fyrir láglaunafólkið en sú aðferð sem nú er notuð. Ríkisstjórnin vildi ekki fara þá leið sem hefði dugað til þess að hækka rauntekjur láglaunafólksins. Það er hinn kaldi veruleiki.

Það ber auðvitað að harma að sú leið skyldi ekki hafa verið valin því að þá hefði ríkisstjórnin í raun farið þá leið sem verkalýðshreyfingin er að leggja upp með í þessum samningum og bæta um betur og tryggja í raun afkomu láglaunafólksins miklu betur en gert er í þeim tillögum sem koma frá ríkisstjórninni að því er varðar skattbreytingar. Er ég þá ekki að gera lítið úr þeim þegar þær koma til framkvæmda en þær koma eins og menn vita til framkvæmda í áföngum hvað varðar hækkun persónuafsláttar, fyrst um 2 þús. kr. og svo aftur 2 þús. kr. og loks 3.211 eða alls rúmlega 7 þús. kr.

Í hinum ýmsu aðgerðum sem ríkisstjórnin hyggst standa fyrir er m.a. loforð um að breyta stimpilgjaldinu. Stimpilgjaldið hefur oft verið til umræðu að því er varðar íbúðarkaup fólks, sérstaklega þess sem er að kaupa sér fyrstu íbúð, en sá skattur, eins og hann er útfærður, er óréttlátur skattur. Það kom best í ljós þegar fólk sem skuldaði reyndi að fara á milli bankastofnana og skipta út lánum til að fá lægri vexti, að þá spilaði stimpilgjaldið inn í það hvaða hag fólk hafði af því í raun og veru að taka upp önnur lánaviðskipti.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í haust á yfirstandandi þingi að hann teldi að stimpilgjaldið væri óréttlátur skattur sem bæri að afnema. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi haft tækifæri til að koma með stefnumótun í þá veru að fella skattinn algjörlega niður þá hefur hún ekki gert það og það ber auðvitað að harma, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa mótað þá stefnu þegar tækifæri gafst til og sátt var um að taka á þessum málum.