135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

póstþjónusta í dreifbýli.

[14:48]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna spurningar hv. þingmanns um hvort þetta séu fyrirmæli frá þeim sem hér stendur, þá mundi í raun og veru duga að segja bara eitt nei. Svo er ekki, og þar með gæti svarinu verið lokið. En það ætla ég hins vegar ekki að gera. Ég kannast við það að menn hafa verið að ræða hugmyndir um að fækka póstdögum, útburðardögum, úr fimm dögum í þrjá á nokkrum svæðum. Eftir því sem ég best man þá er það til umfjöllunar hjá Póst- og fjarskiptastofnun, hins vegar gæti verið að komið hafi álit frá þeim í ráðuneytið í lok síðustu viku. Ég var erlendis þá en rámar í að það hafi verið varað við að þau gögn væru að koma.

Ég kannast heldur ekki við að talað hafi verið um lokun pósthúsanna, kannski hefur hv. þingmaður upplýsingar um það. Auðvitað ber að hafa í huga að stjórn Íslandspósts ræður þessum málum og allur daglegur rekstur heyrir undir hana. Hitt atriðið varðandi póstburðardagana kemur á borð samgönguráðherra. Þannig að ég kannast ekki við þetta.

Hins vegar þekkjum við og vitum að víðast hvar, og bara hjá okkur sjálfum, er miklu minna borið út af pósti vegna þess að fleiri skjöl og bréf berast á rafrænan hátt. Þar kem ég að því sem ég vildi segja hvað þetta varðar sem ég held að sé vert fyrir Alþingi að hugleiða um áform um háhraðatengingarnar sem við ræddum ekki alls fyrir löngu á hinu háa Alþingi og eru að fara í útboð. Þá má kannski spyrja sig að því hvort það geti verið í lagi að fækka póstburðardögum ef tryggt er að póstur berist til fólks á rafrænan hátt, það megi skoða það í framhaldinu. Það má kannski spyrja hv. þingmann hvað hann segi um þá hugmynd.