135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:17]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Stuðningur við landbúnað er vel þekktur í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Miðað þróun mála á alþjóðavettvangi má reikna með að svigrúm okkar til styrkveitinga muni breytast á næstu árum. Aukin krafa er um frjálsari viðskipti með landbúnaðarafurðir milli landa og að dregið verði úr markaðstruflandi styrkjum.

Styrkir á þessu sviði hafa m.a. haft þann tilgang að stuðla að lægra verði til neytenda og tryggja byggð í landinu. Við erum með samninga um sauðfjárframleiðslu og mjólkurframleiðslu til ársins 2012 og 2013. Allar breytingar á því fyrirkomulagi þarf að gera af yfirvegun og það er nauðsynlegt að horfa til þess hvað tekur við að samningstíma loknum.

Atvinnu- og byggðamál eru tíðrædd og oft í tengslum við breytingar í sjávarútvegi. Minna er um það rætt að þróun í landbúnaði, í framleiðslu og vinnslu landbúnaðarafurða, hefur tekið miklum breytingum með tilheyrandi áhrifum á byggðir landsins. Fækkun búa er mikil á sama tíma og bú hafa stækkað og tæknin, eins og í sjávarútvegi, einfaldað alla vinnu og minnkað mannaflaþörf. Að mörgu leyti er það eðlileg þróun en að sama skapi hefur hún mikil áhrif þar sem atvinnustarfsemi í mörgum þorpum og bæjum hefur snúist um þjónustu og verslun við sveitirnar.

Þessari þróun verður ekki snúið við nema okkur takist að efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem fram hafa komið í umræðum undanfarinna daga þegar rætt er um staðsetningu næsta stóriðjuvers. Að sjálfsögðu ber í því tilfelli að horfa til þeirra svæða þar sem grunnstoðir atvinnulífs eru veikastar. Út frá því er eðlilegast að horfa til Bakka á Húsavík.

Styrkjum við hefðbundinn landbúnað verður haldið áfram. Það er óhjákvæmilegt. Auðvitað viljum við í framtíðinni sjá hefðbundnar landbúnaðargreinar eins og sauðfjárrækt verða sjálfbærar. Ég er þess fullviss að við getum stuðlað að slíkri þróun með breytingu sem geri duglegu og hugmyndaríku fólki til sveita mögulegt að auka tekjur sínar með fjölbreyttari framleiðslu á eigin afurðum. Unnið er að því og vonandi geta styrkir okkar til landbúnaðar í framtíðinni stuðlað að því að skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri til sveita. Það gæti orðið besta leiðin til að breyta þeirri búsetuþróun sem hér hefur verið.