135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:21]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir þessa umræðu. Hann vék að því að hann hafði heyrt hitt og þetta og fengið frétt eitt og annað. Hv. þm. Bjarni Harðarson er vitanlega sérfræðingur okkar í drauga- og álfamálum og kann að heyra meira en við hin og ágætt að hann komi með það inn í þessa umræðu eins og hann gerði.

Þessi umræða hefur, virðulegi forseti, vissulega farið vítt og breitt. Ég held, líkt og hæstv. ráðherra kom að, að íslenskur landbúnaður komist ekki hjá endurskipulagningu á allra næstu árum, m.a. vegna alþjóðlegra skuldbindinga um að draga úr opinberum stuðningi. Stuðningur stjórnvalda við atvinnulíf í dreifbýli verður hverju sinni að vera gagnsær, stuðla að efnahagslegri sjálfbærni og tryggja starfandi bændum mannsæmandi kjör. Hv. þingmaður Birkir J. Jónsson kom að því í ræðu sinni varðandi áburðarverð og fóðurverð að þetta tengist kjörum bænda.

Í stjórnarsáttmálanum liggur fyrir að unnið verður að endurskoðun landbúnaðarkerfisins með það fyrir augum að auka frelsi og bæta stöðu bænda, hv. þingmenn og virðulegur forseti, og um leið að lækka verð til neytenda. Ég finn ekki fyrir öðru, virðulegur forseti, en að hljómgrunnur sé fyrir því á þingi að skoða þessi mál með opnum huga. Ég treysti hæstv. landbúnaðarráðherra til að fylgja því úr hlaði eins og það er skrifað í stjórnarsáttmála.