135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[15:35]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla sem ég flyt ásamt þingmönnunum Katrínu Jakobsdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Jóni Bjarnasyni. Frumvarpið miðar að því að fella niður kennslu- og innritunarkostnað í framhaldsskólum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ný grein komi inn í framhaldsskólalögin svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Kennsla í framhaldsskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslur fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá. Ríkinu er skylt að leggja til og kosta kennslu- og námsgögn er fullnægja ákvæðum aðalnámskrár. Opinberum aðilum er ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að þessi grein komi inn í framhaldsskólalögin en efnislega er þetta sambærileg grein og er að finna í grunnskólalögunum þar sem tekin eru af öll tvímæli um að kennsla í grunnskólum skuli veitt nemendum að kostnaðarlausu.

Að mati okkar flutningsmanna mundi samþykkt þessa frumvarps þýða að stigið yrði mikilvægt skref í átt að auknu jafnræði til náms óháð efnahag. Gjaldtökuheimildir laganna varðandi innritunar- og efnisgjöld yrðu þá felld brott samkvæmt frumvarpinu en í gildandi framhaldsskólalögum getur skólanefnd ákveðið upphæð framangreindra gjalda þótt sett sé ákveðið hámark á innritunargjaldið samkvæmt gildandi lögum.

Síðan gerum við tillögu um að fella brott heimild til innheimtu á sérstöku endurinnritunargjaldi sem miðast við 500 kr. fyrir hverja ólokna einingu frá síðustu önn. Sömuleiðis mundi þá falla brott reglugerð nr. 333/1997 um endurinnritunargjald í framhaldsskólum.

Eins og ég gat um er frumvarpið, aðalinnihald þess, efnislega samhljóða 33. gr. grunnskólalaga þar sem kveðið er á um að kennsla í skyldunámi skuli veitt nemendum að kostnaðarlausu. Óheimilt er að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslur fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laganna og aðalnámskrá. Þá er með þessari breytingu lagt til að kveðið verði afdráttarlaust á um að kostnaður við námsgögn skuli vera hluti af rekstri framhaldsskóla.

Rétt er að rifja upp að í aðdraganda síðustu þingkosninga var talsvert rætt um mikilvægi þess að námsgögn í framhaldsskólum væru nemendum að kostnaðarlausu. Markmiðið í þessu frumvarpi er í takt við þær áherslur sem við frambjóðendur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum fram. Í kosningastefnuskrá okkar sagði m.a., með leyfi forseta:

„Vandað og fjölbreytt framhaldsskólanám á að standa öllum til boða óháð efnahag eða öðrum aðstæðum. Því á ekki að taka skólagjöld fyrir framhaldsskólanám. Enn fremur eiga nemendur að hafa aðgang að námsbókum og öðrum námsgögnum sér að kostnaðarlausu. Aðgengi allra að framhaldsskólabyggingum þarf að vera tryggt. Námsaðstaða fyrir nemendur með sérstakar menntunarþarfir verði bætt og hún boðin í sem flestum framhaldsskólum.“

Einnig er rétt að rifja upp að finna mátti sambærileg markmið í málflutningi fleiri framboða fyrir síðustu þingkosningar. Í málefnasamningi núverandi ríkisstjórnar eru gefin fyrirheit um áfanga í þessa átt þótt orðalagið sé að mínu mati býsna rýrt í roðinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„… og nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum.“

Það er reyndar ekkert sagt meira um hvað raunverulega felst í þessu.

Ég minni þá líka á að framhaldsskólinn er í raun og veru skóli fyrir alla eða langflesta þótt hann sé ekki skyldunám. Meira en 90% af hverjum árgangi halda áfram námi að loknum grunnskóla og það er að sjálfsögðu mikið samfélagslegt verkefni að tryggja að öllum sem vilja standi framhaldsskólanám til boða, að hver einstaklingur eigi kost á námi við sitt hæfi og á sínum hraða án tillits til efnahags, búsetu eða annarra slíkra þátta.

Frumvarpið er að sjálfsögðu flutt í þeim tilgangi að koma til móts við þau sjónarmið. Það er ástæðan fyrir því að ekki á að taka skólagjöld fyrir framhaldsskólanám og að nemendur eiga að hafa aðgang að námsbókum og öðrum námsgögnum sér að kostnaðarlausu.

Mig langar að rifja aðeins upp hér við þessa fyrstu umræðu að í aðdraganda síðustu kosninga geystust margir frambjóðendur fram á völlinn og kynntu sjónarmið sín í þessum málum. Reyndar voru það ekki bara frambjóðendur heldur ýmsir aðrir líka. Til dæmis var fjallað um það í leiðara Morgunblaðsins miðvikudaginn 10. maí 2006, reyndar fyrir sveitarstjórnarkosningar, þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Í raun og veru eru allir sammála um að það séu engin rök fyrir því að greiða skuli fyrir aðgang að leikskóla en grunnskólar, framhaldsskólar og sumir háskólar a.m.k. skuli vera ókeypis.“

Þar er lögð sú lína að leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar eigi að vera ókeypis en staðreyndin er sú að framhaldsskólinn er það því miður ekki.

Mig langar líka að vísa til sérstaks kynningarfundar af hálfu Samfylkingarinnar sem greint var frá í Morgunblaðinu 8. maí 2007. Þar kynntu þrír frambjóðendur Samfylkingarinnar stefnu hennar í menntamálum. Þar voru saman komin Björgvin G. Sigurðsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Guðbjartur Hannesson, öll hv. þingmenn núna — tveir af þessum einstaklingum eru nú ráðherrar í ríkisstjórninni. Þar var m.a. lögð áhersla á að stefna ætti að því að bækur í framhaldsskólum yrðu ókeypis. Í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, nú hæstv. utanríkisráðherra, kom þá fram, í endursögn Morgunblaðsins, að ekki væri hvað síst mikilvægt að efla fjárfestingu í framhaldsskólunum. Í skólakerfinu væri framhaldsskólinn væntanlega sá sem helst þyrfti á því að halda.

Í grein eftir hv. þm. Guðbjart Hannesson í Morgunblaðinu 18. apríl undir heitinu Stöndum vörð um börnin okkar og fjárfestum í framtíðinni, er þessu sama markmiði haldið fram og segir þar að taka eigi upp gjaldfrjálsan leik-, grunn- og framhaldsskóla. Sú hugsun er því greinilega þar á ferðinni. Og 12. apríl 2007 er einnig grein eftir hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar, þar sem hann telur upp helstu markmið sem Samfylkingin vill gera varðandi málefni ungs fólks. Þar segir m.a. í 5. tölulið — þar er talið upp í átta töluliðum:

„Ókeypis námsbækur í framhaldsskólum.“

Það er varaformaður Samfylkingarinnar sem segir þetta í sinni grein. Hæstv. núverandi iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson skrifar einnig um sama mál í Fréttablaðinu 11. apríl. Þar segir m.a. með leyfi forseta:

„Að námsbækur í framhaldsskóla verði nemendum að kostnaðarlausu.“

Einnig er hægt að finna grein eftir hæstv. viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson sem var einn helsti talsmaður þingflokks Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili í stjórnarandstöðu. Hann skrifar í Blaðið, forvera 24 stunda, 19. apríl 2007. Þar getur hann sérstaklega um það sem mikilvægt mál að stuðla eigi að því að námsefni í framhaldsskólum verði ókeypis. Hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, skrifar einnig grein í sama blað 28. apríl þar sem hann segir m.a. með leyfi forseta:

„Námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu.“

Fleira væri hægt að tína til í þessu efni. Ég vil líka minna á að í samantekt Morgunblaðsins fyrir kosningar 6. maí 2007, þar sem var fjallað sérstaklega um menntamál allt frá leikskóla til háskóla, ber blaðið saman afstöðu stjórnmálaflokkanna til ýmissa álitamála í menntamálum. Þar er m.a. talað um samræmd próf í grunnskólum, samræmt stúdentspróf, lengingu kennaramenntunarinnar, hvort flytja eigi framhaldsskóla til sveitarfélaga, um gjaldfrjálsan leikskóla og um ókeypis námsbækur í framhaldsskólum. Það sýnir bara að þetta var mál sem mikið var fjallað um í kosningabaráttunni og vitaskuld sýndist sitt hverjum eins og gengur. Í samantekt Morgunblaðsins kemur fram að hvað þetta atriði snertir höfðu öll framboðin á landsvísu lýst því yfir að þau væru fylgjandi ókeypis námsbókum nema Sjálfstæðisflokkurinn sem segist hafa verið andvígur því, og Íslandshreyfingin sem hafði ekki skoðun í þessu máli.

Einnig kemur fram í þessari úttekt að að mati margra frambjóðenda og flokka höfðu menn áhyggjur af þeim kostnaði sem nemendur í framhaldsskólum þurfi að bera, einkum og sér í lagi vegna bókakaupa.

Ég fletti líka upp á frétt í Fréttablaðinu frá því í apríl 2007 þar sem fjallað er um starfshóp sem hæstv. menntamálaráðherra fól að gera tillögur um fjölbreytileika og sveigjanleika í skipulagi náms og námsframboðs en í skýrslu þess hóps eru lagðar til stórfelldar breytingar á íslensku menntakerfi. M.a. er þar lagt til að samræmd próf í núverandi mynd verði lögð niður og skólinn verði gjaldfrjáls til 18 ára aldurs. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvernig þessum tillögum hefur reitt af en við höfum nú fengið frumvörp inn í þingið frá menntamálaráðherra, m.a. um grunn- og framhaldsskóla. Við sjáum hvernig þessum málum er fyrirkomið þar. Ég lýsi vonbrigðum með að í frumvörpum menntamálaráðherra, m.a. um framhaldsskóla, er hvorki tekið á gjaldfrelsi framhaldsskóla né því að námsbækur eigi að vera nemendum að kostnaðarlausu.

Ég hef farið yfir það hér hver meginmarkmiðin eru með þeim breytingartillögum sem við leggjum til á framhaldsskólafrumvarpinu eða framhaldsskólalögunum til þess að tryggja ókeypis námsgögn. Ég hef líka rakið það lauslega hvaða viðhorf voru uppi fyrir síðustu kosningar, einkum og sér í lagi af hálfu Samfylkingarinnar sem hafði mjög mikil og metnaðarfull áform í þessa veru. Hún er nú komin í ríkisstjórn og hefur þar væntanlega góða aðstöðu til að láta þessa drauma rætast.

Mér sýnist af þeirri umfjöllun sem ég hef farið í gegnum hvað varðar afstöðu stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu kosningar, að drjúgur meiri hluti sé hér á hv. Alþingi fyrir því að námsgögn í framhaldsskólum og kennsla í framhaldsskólum skuli veitt nemendum að kostnaðarlausu og að óheimilt skuli vera að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslu fyrir kennslu, námsgögn og annað efni. Ef hv. þingmenn eru samkvæmir sjálfum sér í þessu efni ætti þetta frumvarp að sjálfsögðu að fá góðar viðtökur hér.

Ég sagði líka að Sjálfstæðisflokkurinn væri eini flokkurinn sem beinlínis hefði sagt fyrir kosningar að hann væri andvígur því að þessi breyting yrði gerð. Það mun því reyna á það núna hvort það er ísköld stefna Sjálfstæðisflokksins og hæstv. menntamálaráðherra sem mun ráða í þessu máli eða raunverulegur vilji og hugur þingmanna eins og hann birtist kjósendum fyrir síðustu alþingiskosningar.

Ég ætlast að sjálfsögðu til þess að frambjóðendur hafi meint eitthvað með kosningaloforðunum og vilji gjarnan beita sér fyrir því að ná þeim fram. Mér sýnist að góður stuðningur geti orðið við málið hér á Alþingi ef menn láta samviskuna ráða eins og stjórnarskráin býður þeim.

Að lokum, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til menntamálanefndar og 2. umr.