135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

sjávarlíffræðisafn og rannsóknarsetur á Akureyri.

116. mál
[16:47]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki stór og mikill efnislegur ágreiningur milli mín og hv. þingmanns. Við erum sammála um að efla Háskólann á Akureyri. Við viljum stuðla að því að hann geti enn frekar mótað sér sína sérstöðu, sérstaklega á sviði sjávarútvegsfræðinnar og á ýmsum öðrum sviðum sem hann er að afla sér líka núna sérstöðu.

Síðan er hitt að það er ekki að ástæðulausu að við erum hér með rammalöggjöf um háskóla af því að við erum að undirstrika sjálfstæði þeirra, sjálfstæði þeirra til að móta sér sitt akademíska frelsi, rannsóknarfrelsi, til að þeir geti miklu frekar tekið þessar ákvarðanir heldur en það að við förum annars vegar í ráðuneytinu eða héðan af þinginu að dæla inn tillögum um hvað þeir eiga að gera. Ég held miklu frekar að Háskólinn á Akureyri og fræðasamfélagið fyrir norðan eigi frekar að líta á þessa tillögu sem hvatningu til þess að horfa í sömu átt og hv. þingmaður. En við eigum ekki að segja þeim nákvæmlega fyrir verkum. Það er ekki í anda þeirra laga sem við höfum samþykkt á Alþingi og ég held að það hugsanlega geti frekar minnkað svigrúm háskólanna til að móta námsframboð og rannsóknarstarfsemina og fleira í samræmi við það hver tíðarandinn er og umhverfið er hverju sinni. Ég undirstrika að þetta er ein grundvallarhugsunin í mótun háskólasamfélagsins á undanförnum árum og við höfum haft til þess fullan stuðning háskólanna, þ.e. að ýta enn frekar undir sjálfstæði háskólanna. En samhliða því hef ég reyndar sagt — og það er ágætt að koma því að núna líka, herra forseti, — að samhliða því hef ég sagt að á móti kemur að við í menntamálaráðuneytinu verðum að efla enn frekar okkar gæða- og eftirlitshlutverk með háskólunum þannig að þeir sinni sínu hlutverki sem þeir eru reyndar að gera. En við verðum að auka okkar gæða- og eftirlitshlutverk enn frekar.