135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[11:35]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og sagt að verið sé að gera góð lög betri. Ég tel að gríðarlega margt gott felist í þessu frumvarpi sem hæstv. félagsmálaráðherra leggur fram.

Fyrst langar mig að nefna ákvæði í 5. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um rétt beggja foreldra í stað móður áður til þess að hefja töku á foreldraorlofi mánuði fyrir fæðingu barns. Sérstaklega er þetta mikil réttarbót fyrir feður sem búa úti á landi vegna þess að þar getur það gerst að móðir þurfi að fara að heiman til þess að vera nálægt sjúkrahúsi allt að mánuði, eða einhvern tíma, fyrir fæðingu barnsins. Hingað til hefur faðirinn og fjölskyldan ekki getað fylgt móðurinni. Því skiptir þetta ákvæði gríðarlega miklu máli fyrir þá að hafa nú þennan rétt að geta fylgt barnsmóður sinni og eytt með henni tíma fyrir fæðingu barnsins nálægt sjúkrahúsi ef svo ber undir. Ég fagna þessu atriði sérstaklega og veit um þó nokkur tilvik þar sem faðirinn hefur ekki getað fylgt móðurinni og verið með henni og fjölskyldan hefur verið sundruð í aðdraganda fæðingar barnsins.

Í öðru lagi fagna ég þeim rétti sem færður er einstæðum foreldrum, þ.e. foreldrum sem búa við það að annað foreldrið getur ekki nýtt fæðingarorlof sitt en í slíkum tilfellum getur rétturinn nú færst á milli foreldra. Ég fagna þessu sérstaklega, þarna er komin örlítil opnun. Að mínu mati hefði sú opnun jafnvel mátt vera meiri en er í frumvarpinu en þetta er þó alla vega skref í rétta átt. Hér er lagt til að ef annað foreldri er ófært t.d. vegna sjúkdóms, slyss eða vegna þess að það situr í fangelsi þá færist rétturinn á milli. Þetta er verulega til bóta vegna þess að það má ekki bitna á börnunum þó að svona sé komið fyrir öðru foreldrinu. Þau börn eiga líka rétt á því að vera heima með foreldrum sínum eða öðru foreldri í níu mánuði eins og þar sem beggja foreldra nýtur við. Ég hefði sjálf kosið að við gengjum aðeins lengra í þessu efni en þetta fyrsta skref tel ég afar jákvætt. Þegar ég segi „að ganga lengra“ á ég við að ég hefði viljað að við skoðuðum hvort t.d. ófeðruð börn ættu að falla inn í þennan hóp eða þar sem annað foreldrið dvelur erlendis og hyggst ekki koma til landsins og taka fæðingarorlof sitt eða hefur jafnvel ekki rétt til þess hér á landi. Ég tel að þetta sé eitthvað sem við þurfum að skoða betur og vonast til þess að nefndin taki þessi atriði til skoðunar þegar málið kemur þar til umfjöllunar.

Í þriðja lagi vil ég nefna atriði sem er gríðarlega mikilvægt og það er viðmiðunartímabilið. Viðmiðunartímabilið í núgildandi lögum er, eins og hefur sýnt sig, afar óréttlátt. Þetta er breyting sem gerð var á lögunum árið 2004, að mig minnir, sem gróf að mínu mati undan þeirri góðu löggjöf sem smíðuð var hér, þessum fínu fæðingarorlofslögum sem smíðuð voru árið 2000 og samþykkt í þinginu. Þarna var í fyrsta lagi um afar óréttlátt viðmiðunartímabil að ræða. Að vera með tvö almanaksár eða tvö skattaár þýðir að í sumum tilfellum voru tekjur metnar 24 mánuði aftur í tímann og í öðrum tilfellum voru þær metnar allt að 36 mánuði aftur í tímann. Þarna var því gríðarlegt misræmi á milli eftir því hvenær á árinu barnið fæddist auk þess að tímabilið var gríðarlega langt, 36 mánuðir. Það gefur ekki raunsanna mynd af tekjum einstaklingsins þegar miðað er við laun allt að 36 mánuði aftur í tímann. Þá er ekki lengur um að ræða, sem var einmitt grundvallaratriði þegar lögin voru samþykkt árið 2000, að fólk í fæðingarorlofi fái 80% af tekjum sínum í fæðingarorlofi. Sú er ekki raunin í dag miðað við þetta gríðarlega langa viðmiðunartímabil. Sú breyting sem hér er verið að gera, að meta eingöngu 18 mánuði aftur í tímann og þá samfellda mánuði, ekki almanaksár, er gríðarlega mikilvæg og réttlát. Við vitum öll að hjá ungu fólki á barneignaraldri er gríðarlega mikið launaskrið og launin hjá því breytast mjög hratt. Núgildandi lög hafa t.d. haft mjög mikil áhrif á foreldra sem eignuðust börn með stuttu millibili því að þegar tekjur eru metnar 36 mánuði aftur í tímann eru reiknuð 80% af 80% tekjum. Þegar búið er að stytta tímabilið niður í 18 mánuði er það alla vega mun nær lagi en í núgildandi lögum.

Virðulegi forseti. Það voru tvö atriði sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á í ræðu sinni og mig langar að gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi fjallaði hún um nokkuð sem makar námsmanna erlendis hafa lent í, þ.e. að ef maki fylgir námsmanni á erlenda grund og er með honum þar sem — t.d. í Danmörku og á ekki rétt á fæðingarstyrk í því landi — þá hefur hann vegna lögheimilisflutnings ekki heldur rétt á fæðingarstyrk héðan, þannig eru lögin í dag. Á þessu er ekki beinlínis tekið í frumvarpinu nema makinn fari í fjarnám. Það er þó mikilvæg breyting sem verið er að gera í frumvarpinu, þ.e. ef makinn er í fjarnámi, þó að hann flytji lögheimili, á hann rétt á fæðingarstyrk. Ég held að nefndin verði að skoða hvort hægt sé að koma til móts við þá maka erlendis sem ekki eru í fjarnámi þannig að ef þeir detta á milli — auðvitað eru mörg lönd þar sem þeir hafa einhvern rétt, svo sem á fæðingarstyrk, ef makar þeirra eru í námi í viðkomandi landi. Þó eru einstaka lönd eins og Danmörk þar sem svo er ekki. Nefndin ætti að skoða hvort hægt sé með einhverju móti að koma til móts við þessa einstaklinga.

Virðulegi forseti. Það er líka annað sem hv. þingmaður kom inn á. Það er ef annað foreldrið hefur ekki hug á að sinna barninu, hversu langt getum við gengið í því að framselja réttinn eða skipta orlofinu á milli þannig að annað foreldrið taki alla níu mánuðina. Mér finnst þetta vera spurning sem ég held að nefndin þurfi að skoða dálítið. Getum við ekki t.d. þegar annað foreldri er sannanlega búsett erlendis, eða við einhverjar slíkar aðstæður, tekið tillit til þess, vegna þess að þetta snýst allt um rétt barnsins? Auðvitað snýst þetta um það að barnið fái heila níu mánuði heima. Barnið valdi sér ekki foreldra og ef annað foreldrið ætlar sannanlega ekki að taka þátt í uppeldi þess á fyrstu mánuðunum og fyrstu árunum verðum við alltaf að láta barnið njóta vafans að mínu mati. Það er barnið sem á að eiga þennan rétt. Þetta á ekki að snúast um foreldrana. Þegar fæðingarorlofslögin nýju voru samþykkt árið 2000 fór fókusinn eða sjónarhornið frá barninu til foreldranna. Lögin snúast um rétt foreldranna í meira mæli en áður. Ég held að með bæði þessu frumvarpi og líka þeim breytingum og bótum sem við eigum eftir að gera á lögunum í framtíðinni verðum við — og ég veit að hæstv. félagsmálaráðherra er mjög meðvituð um þetta — að setja fókusinn aftur á barnið inn í lögin.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu vil ég rétt í lokin nefna — af því að hæstv. ráðherra nefndi hér lengingu fæðingarorlofs en það er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að lengja eigi fæðingarorlofið á kjörtímabilinu. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við gerum það. Ástæðurnar fyrir því eru margþættar og kannski ekki síst sú, og þetta vitum við sem erum foreldrar, að á aldursskeiðinu 6–12 mánaða eiga sér stað gríðarlegar breytingar í lífi, umhverfi og þroska barnsins. Barnið er að læra að sitja, standa upp, labba með og jafnvel taka sín fyrstu skref og þegar svo mikill líkamlegur þroski á sér stað getur fólk rétt ímyndað sér hversu mikill tilfinningaþroski á sér stað á sama tíma. Þess vegna held ég að mikilvægast af öllu sé að barnið sé með foreldrum sínum þegar þessar þroskabreytingar eiga sér stað. Því tel ég að tólf mánaða fæðingarorlof ætti að vera markmið okkar allra. Að mínu mati er það lágmark ef maður tekur tillit til þess sem ég sagði hér varðandi tilfinningaþroskastökkin sem börnin taka á þessum örfáu mánuðum. Þetta skiptir allt gríðarlega miklu máli.

Virðulegi forseti. Ég fagna verulega þessu frumvarpi og ég vona að hv. félags- og tryggingamálanefnd taki til skoðunar þau atriði sem ég nefndi hér sem ekki er að finna í frumvarpinu.