135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:21]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ellerti B. Schram fyrir greinargóð svör. Ekki verður annað skilið en að hann taki undir þau meginsjónarmið sem ég rakti hér áðan um það að í sjálfu sér erum við ekki að leysa úr einhverjum sérstökum flækjum með frumvarpinu. Spurningin er hins vegar hvort verið er að stíga rétt skref fram á við eða ekki. Ég hygg að við séum líka sammála um að við erum að stíga rétt skref fram á við.

Ég rakti það í upphafi ræðu minnar hér áðan að við frjálslynd hefðum að mörgu leyti viljað ganga lengra hvað varðar aðstoð við þá sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Það er hins vegar mat ríkisstjórnarinnar að leggja fram þá tillögu sem hér er. Það er til bóta, eins og við höfum lýst yfir, og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson rakti það mjög rækilega í ræðu sinni áðan.

Að öðru leyti er það spurning með hvaða hætti og hvernig menn ætla að halda um og haga hinni félagslegu aðstoð sem nokkrar umræður hafa orðið um. Hv. þm. Ellert B. Schram kom inn á það áðan og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir gerði það líka að umtalsefni. Virtist mér sem fram kæmu hugmyndir sem ég minntist líka á í ræðu minni og varpaði fram til hv. þm. Ellerts B. Schrams, hvort vilji væri til þess að taka upp gjörbreytt kerfi frá því sem nú er. Ég vakti t.d. athygli á því að menn hefðu bent á einfalt kerfi þar sem um væri að ræða svokallaðan neikvæðan tekjuskatt þannig að þeir sem væru undir ákveðnum viðmiðunarmörkum fengju greitt til baka. Í sjálfu sér hafa menn ekki getað bent á neitt einfaldara velferðarkerfi sem væri þá alla vega flækjuminna en það sem er við lýði í dag.