135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:43]
Hlusta

Flm. (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um frumvarpið. Þar kom út af fyrir sig ekkert alveg nýtt fram, flest af því sem hér var rætt hefur komið fram áður og kom fram þegar við gerðum breytingar á þingskapalögunum. Með þessu frumvarpi er verið að styrkja þá ákvörðun, þá breytingu sem gerð var með þingskapalögunum og með afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008 hvað varðar kostnað vegna nefndasviðsins, vegna aðstoðarmanna og fleiri atriða sem tengjast þessari umfangsmiklu breytingu á störfum þingsins. En út af því sem hér kom fram vil ég nefna nokkur atriði.

Í fyrsta lagi tel ég það af og frá að þær breytingar sem hér er verið að gera á lögum nálgist með einhverjum hætti brot á stjórnarskránni. Ég tel það alveg af og frá og vísa til þess m.a. að þær tillögur sem hér er verið að fjalla um — sem í rauninni, eins og ég sagði fyrr, er búið að taka ákvörðun um á öðrum vettvangi með breytingum á öðrum lögum — eru allt saman tillögur sem lagðar voru til grundvallar breytingum á kjördæmaskipuninni. Ég minnist þess ekki varðandi tillögur sem fylgdu ákvörðunum um breytingar á kjördæmaskipuninni sem tengjast því að bæta starfsaðstöðu þingmanna í stóru kjördæmunum að ýjað hafi verið að því þá að menn væru að brjóta stjórnarskrána með því að skapa þingmönnum betri skilyrði til að sinna starfi sínu. Það væri þá með sama hætti brot á stjórnarskránni að kosta ferðalög og búsetu þingmanna. Ég vísa þessu algerlega á bug og tel það fjarri öllu lagi.

Það er fyrst og fremst verið að gera það sem menn gerðu ráð fyrir að yrði að gerast en það er að skapa betri starfsskilyrði og ef eitthvað er brot á einhverjum reglum þá er það auðvitað það að kjördæmaskipanin er eins og hún er í dag vegna þess að þingmenn kjördæmanna, Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmis þurfa að leggja svo mikið á sig vegna vegalengda að það er algerlega ósambærilegt við þá ágætu þingmenn sem aldrei fara upp fyrir Elliðaárnar. (Gripið fram í: Hverjir eru það?) Það eru mjög margir þingmenn og allt of margir kannski ef maður lítur á það út af fyrir sig. Ég bið menn um að hefja ekki svona umræðu vegna þess að aðstæðurnar eru svo gerólíkar, vinnutíminn sem fer í það að ferðast á milli staða vegna fundahalda, vegna upplýsingaöflunar og vegna margs konar vinnu í þessum landstóru kjördæmum kostar bæði peninga og aðallega tíma, þannig að vinnustundirnar hjá þeim þingmönnum sem gert er ráð fyrir að fái bætta starfsaðstöðu eru mjög margar. Nóg um það, ég ætla ekki að hefja umræðu um þessi grundvallaratriði aftur. Við tókum þá umræðu í haust og höfum gert það áður.

Vegna þess að þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að almennt séu þessar heimildir til staðar að þingmenn hafi aðgang að starfsfólki eða starfsmönnum í hlutastarfi — og það kann að vera þegar fram líða stundir, og kannski fyrr en seinna, að þá verði gerð krafa um meiri stuðning við alla þingmenn hvar sem þeir eru — vil ég minna á það að þegar kjördæmabreytingin var gerð fengu flokkarnir töluverða fjármuni. Teknar voru frá 50 millj. á ári sem er deilt milli þingflokkanna eftir ákveðnum reglum til að auðvelda þeim starfsemina við breyttar aðstæður. Það er nauðsynlegt að rifja þetta upp og stjórnmálaflokkarnir hafa þá fjármuni og þeir eru allnokkrir.

Eins og kom fram hjá hv. 9. þm. Norðausturkjördæmis þá erum við annars vegar að tala um bætta starfsaðstöðu úti í kjördæmunum og spurninguna um sérfræðivinnu eins og hv þm. Jón Magnússon nefndi réttilega og hins vegar starfið á nefndasviðinu og í þinginu. Ég hef alltaf lagt á það ríka áherslu að við verðum að skapa stjórnarandstöðunni sérstaklega betri starfsaðstæður á vettvangi nefndastarfsins. Þess vegna verða ráðnir þrír starfsmenn sem verða aðallega í því að sinna verkefnum fyrir stjórnarandstöðuþingmennina og allt er þetta liður í því að bæta vinnubrögðin í þinginu.

Hvað það varðar að forsætisnefndin taki ákvörðun um þær reglur sem snúa bæði að launakjörum og starfskostnaði aðstoðarmannanna þá er þar alls ekki um að ræða neinar geðþóttaákvarðanir. Forsætisnefnd leggur mjög mikla vinnu í að setja þessar reglur og hefur gert það nú þegar eins og um aðrar reglur sem gilda um útgjöld vegna starfa þingmanna. Ég tel að það sé allt saman byggt á mjög traustum grunni og ekki ástæða til að vefengja það. Ég held að launakjaraviðmiðun við þingfararkaupið sé ekki tilefni eða ástæða til að láta að því liggja að verið sé að innleiða einhverja mismunun hvað varðar kjör starfsmanna sem tengjast þinginu. En auðvitað þarf að fara varlega í þessu öllu saman og ég ýti ekki til hliðar varnaðarorðum um það þegar þau eru mælt fram af góðum vilja til þess að hér sé staðið vel að verki.

Ég undirstrika það sem ég sagði fyrr að þetta frumvarp er hluti af því að bæta starfsaðstöðu þingmanna en hér er hins vegar fyrst og fremst verið að fjalla um þá aðstöðu sem þingmenn í þremur kjördæmum og formenn stjórnarandstöðuflokkanna þurfa að hafa. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða um frumvarpið og út af fyrir sig kom fátt nýtt fram.

Ég tel eftir atvikum eðlilegt að frumvarpið gangi til allsherjarnefndar á milli umræðna og þá gefist færi á að fara vandlega yfir málið, þannig að ekki sé verið að efna til neins ófriðar vegna hraðrar afgreiðslu á málinu en ég legg engu að síður áherslu á það. Ég tel að það eigi að geta verið hægt að ljúka þessu fyrir 1. mars eins og við gerðum ráð fyrir til þess að m.a. stjórnarandstaðan geti fengið þá starfskrafta sem við gerum ráð fyrir að komi til skjalanna sem við byggjum á þessu frumvarpi. Að öðru leyti þakka ég fyrir ágæta umræðu og vona að hv. þingmenn geti sæst á málið fyrir rest.