135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

13. mál
[18:34]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir góðar undirtektir í heildina séð við þessa þingsályktunartillögu. Ég hlýt að fagna því ef verkefnastjórn rammaáætlunar setur niður umgengnisreglur um jarðhitasvæðin annars vegar og skilgreinir hvað sé sjálfbær nýting þeirra hins vegar. En hvað ágenga vinnslu snertir þá hefur það auðvitað þegar verið skilgreint því ágeng vinnsla gengur á jarðhitaforðann þannig að minna kemur inn í kerfið heldur en út úr því er tekið og þess vegna þarf að hvíla það. Það þarf engar skilgreiningar í þeim efnum.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að á orkuþingi árið 2001 var lögð fram tillaga Guðna Axelssonar sérfræðings og fleiri á Orkustofnun um mat á því hvað skyldi teljast sjálfbær vinnsla jarðhitasvæða. Þessi tillaga gengur út á það að fyrir sérhverja vinnsluaðferð og sérhvert jarðhitasvæði sé til ákveðin hámarksvinnsla þannig að með lægra vinnslustigi en þessu hámarki sé hægt að viðhalda orkuvinnslu óbreyttri í kerfinu í 100–300 ár. Þetta er sú skilgreining sem helstu sérfræðingar Orkustofnunar hafa lagt í það að vinnsla jarðhitasvæða sé sjálfbær, 100–300 ár.

Á orkuþingi á árinu 2006, eins og sjá má í fylgiskjölum þessarar þingsályktunartillögu, kom fram grein frá Sveinbirni Björnssyni sem hér var áður nefndur og niðurstaða hans var sú að þrátt fyrir sjálfbæra vinnslu með þessum hætti verði varmanámið sífellt örara og kerfið kólni í raun þó yfir mjög langan tíma sé ef það fær ekki að jafna sig með hvíld. Sveinbjörn Björnsson segir í þessari grein að vinnsla geti ekki talist sjálfbær nema hlé séu gerð á henni til að leyfa jarðhitakerfinu að jafna sig eftir jarðvarmanámið. En þar sem Sveinbjörn Björnsson er einn höfunda hinnar fyrri skilgreiningar sem ég nefndi um nýtingu til 100–300 ára þá reikna ég ekki með að í skilgreiningu hans hér um hlé á jarðhitavinnslu sé um að ræða ágenga vinnslu eins og þá sem fyrirhuguð er á Hellisheiðinni. Hellisheiðarvirkjunin er fyrsta virkjunin sem þannig er hugsuð eins og ég nefndi áðan. Það er réttnefni sem kom fram í fyrirsögn í Viðskiptablaðinu í greininni sem ég nefndi áðan að með þessu móti er verið að fleyta rjómann af auðlindinni og menn eru ekki að fara neitt í felur með þá skoðun sína í þessari grein að það sé eðlilegt að vera ágengir og taka jarðvarmann hraðar upp heldur en hann kemur neðan frá og sjá bara hvað setur. Við eigum svo mörg háhitasvæði, segir á einum stað í greininni eða eitthvað í líkingu við það. „Við eigum svo mörg háhitasvæði. Af hverju ættum við ekki að geta tekið eitt og bara prófað hve langt við komumst með það.“ Þetta er auðvitað viðhorf sem liggur við að maður fyrirverði sig fyrir að þurfa að nefna.

Ég get tekið undir með ráðherranum um að nauðsynlegt sé að efla eftirlit með framkvæmdum bæði við rannsóknir og við vinnslu á jarðhitasvæðunum og ég hvet hann til þess að fylgjast náið með því hvernig menn fara fram með þær leiðir sem þeir nú þegar hafa og víst er að það verður fylgst með því hvernig farið verður með í Gjástykki.

Ég endurtek það að ráðherrann missti af tækifæri sem hann þar hafði til að bjarga einu mjög verðmætu ósnortnu jarðhitasvæði sem var sett í hendur Landsvirkjunar til rannsókna tveim dögum fyrir kosningar. Það er alveg ljóst að Landsvirkjun fór hamförum síðustu dagana fyrir kosningar, fór hamförum þegar hún áttaði sig á því að hún var að missa iðnaðarráðuneytið. (Gripið fram í.) Landsvirkjun var að missa iðnaðarráðuneytið. Landið lá þannig. Þeir voru hræddir og á síðustu dögum fyrir kosningar fékk Landsvirkjun að minnsta kosti tvennt svo vitað sé. Kannski eitthvað fleira eigi eftir að koma í ljós. Í fyrsta lagi voru Landsvirkjun afhent á silfurfati öll vatnsréttindin í Neðri-Þjórsá án fyrirvara um samþykki Alþingis. Það gerðist með undirritun slíks samkomulags 9. maí, þrem dögum fyrir kosningar. Hitt atriðið sem við þekkjum er þetta makalausa rannsóknarleyfi sem var gefið út í Gjástykki. Umsóknin var dagsett 8. maí og leyfið var gefið út þann 10. og sem ég segi, þar missti hæstv. iðnaðarráðherra af tækifæri sem ekki kemur aftur, virðulegi forseti.

Hvað það varðar að ekki sé hægt að setja samasemmerki á milli þess að veita rannsóknarleyfi og síðan vinnsluleyfið þá er það á pappírunum þannig. En mig langar til að vekja athygli á því af því að við höfum verið að ræða Hengilssvæðið og Hellisheiðarvirkjun að Orkuveita Reykjavíkur fékk rannsóknarleyfi til 15 ára á Hengilssvæðinu árið 2001 og það voru strax hafnar rannsóknarboranir og þrír áfangar rannsóknarborana voru tilkynntir til Skipulagsstofnunar og það var enginn háður mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaleyfi var þannig veitt fyrir sjö rannsóknarholur áður en mati á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar lauk og borun þeirra var allri lokið þegar matsskýrslan var lögð fram. Þannig hafa nú vinnubrögðin verið og það eru þessi víti sem ber að varast. Ég er ekkert viss um að það hafi breyst mikið frá þessum tíma. Þessar sjö rannsóknarholur eru til þess ætlaðar að stunda ágenga nýtingu á Hellisheiðarsvæðinu í Hverahlíðarvirkjun og Bitruvirkjun. Það á bara að búa til rafmagn. Það á ekki að nýta heita vatnið. Það á að nota um það bil 10% af allri orkunni sem upp kemur. Hinu á bara að fórna og farga með ágengri nýtingu sem gengur svo nærri hverri holu, hverju svæði sem þeir skilgreina að það þarf að hvíla það í jafnlangan tíma, nýta það í 30 ár, hvíla það í 30 ár. Og eins og kemur fram í matsskýrslum þá þarf að bora á öðru og þriðja hverju ári viðbótarholur til að halda svæðunum við. Þetta þýðir í raun að Hellisheiðin á að vera undirlögð borunum á hverju 30 ára tímabili í sífellu. Það á alltaf að halda áfram að bora. Hvað er nú orðið af hugmyndunum um skáboranirnar sem áttu að koma í veg fyrir þessa yfirborðseyðileggingu sem ég nefndi áðan?

Ég fullyrði, herra forseti, að margt þarf hér að athuga. Ekki er allt sem sýnist. Við höfum búið við of grunnar skilgreiningar og þegar við spyrjum um sjálfbærni þá þarf það að vera sjálfbært heilt í gegn. Ágeng vinnsla eins og nú er fyrirhuguð í Hellisheiði þar sem á að nýta 10% af orkunni getur aldrei talist sjálfbær.