135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:16]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra nefndi síðast, að veðurfarið er ekki upp á það besta á fjallvegum Vestfjarða. Hitt sem hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni, að það væri sérstök eftirsjá í grjóthólum sunnan Drangajökuls, er ég honum algjörlega ósammála um. Það eru til miklu fallegri fjöll á Vestfjörðum til að fara yfir og skoða en að rölta á milli ísilagðra tjarnanna fyrir sunnan Drangajökul. Þar er ekki stingandi strá. Þar er ekki einu sinni rolla, hæstv. ráðherra, ekki einu sinni um hásumartímann enda er ekkert þangað að sækja.

Ég nefni þetta vegna þess að mönnum er auðvitað sárt um náttúru Íslands og mér er það einnig þótt ég sjái ekki sérstaka fegurð í grjóthólunum sunnan Drangajökuls. Ég verð bara að viðurkenna það. En það getur verið að ég líti það öðrum augum en hæstv. ráðherra. Ég sé hins vegar mikla fegurð í mörgum öðrum fjöllum Vestfjarða, heiðum og dölum og er af miklu að taka í þeim efnum.

Ég veit satt að segja ekki um voðalega marga sem hafa á undanförnum árum gengið yfir Ófeigsfjarðarheiði. Ég veit um hestaferðir sem fara norður um Strandir, koma í Reykjarfjörð og fara svo suður um og ýmist yfir jökul eða sunnan við. En ég veit ekki um marga gönguhópa sem hafa verið að gera það að sérstöku efni að ganga yfir Ófeigsfjarðarheiði. Þó kann það að vera, ég er ekki búsettur þar. Ef hæstv. ráðherra vill fá nákvæmar upplýsingar um það þá bendi ég honum á að ræða við Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði sem er manna fróðastur um mannaferðir á Ströndum og leggur þeim oft til leiðbeiningar um hvert þeir eiga ekki að fara svo þeir drepi sig ekki.