135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:28]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur áhyggjur af því að þetta kerfi sé ómögulegt og við ættum að láta af hugmyndafræðilegu tali. Það getur vel verið að hv. þingmaður sé á þeirri línu þegar kemur að markaðsöflunum en ég veit ekki hvort hann er á þeirri línu þegar kemur að málum sem honum eru kærari og varða hugmyndafræðilega þætti.

Varðandi atriði sem hann nefndi, sem ég fór yfir í ræðu minni og stendur skýrt í skýrslunni, að mönnum gengur hægt að skipta um raforkusala, þá tók ég fram það að samkeppnin væri kannski harðari framleiðslumegin. Það er auðvitað augljóst og þannig er það. Þar er verið að selja meira magn til stærri notenda af öðrum straumi og ýmsir þættir sem hafa áhrif á verðið.

Íslenski markaðurinn er dálítið sérstakur en nota bene þá liggur fyrir að annars staðar á Norðurlöndum, þar sem meiri blöndun er, gengur líka illa fyrir menn að skipta eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom sjálfur inn á. En það er kannski erfiðara á Íslandi vegna þess að yfirgnæfandi hluti allrar okkar orku er endurnýjanlegur, virkjaður úr vatnsafli og eiginlega eftir nákvæmlega sömu formúlum. Þannig að við byrjum að ganga á gólfinu, á nákvæmlega sama stað. Það gerir að verkum að miklu erfiðara er að vera með mikla verðsamkeppni. Ég held að það skýri hluta af þessu.

Mig langar samt sem áður að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson að því, vegna þess að ég veit að hann hefur fylgst vel með umræðunni í dag, hver hans sjónarmið eru þegar kemur að uppbyggingu byggðalínunnar og hvort hann telji ástæðu til þess að efla flutningskerfið með því að fara í sérstakar aðgerðir þar að lútandi. Enn fremur hef ég áhuga á að heyra sjónarmið hv. þm. Ögmundar Jónassonar um fyrirhugaðar framkvæmdir á Búðarhálsi og hvort hann telji að slík framkvæmd gæti verið (Forseti hringir.) æskileg fyrir þjóðina.