135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:37]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með þessum umræðum í dag og ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir mjög ítarlega og áhugaverða skýrslu um þetta mikilvæga málefni. Ég ætla aðeins í stuttu máli að nálgast þessa umræðu út frá atvinnumálum og byggðaþróun.

Uppspretta allrar framþróunar og grundvöllur samfélaga byggir á orkunýtingu og hjá mörgum þjóðum er orkuskortur mikið vandamál og allra leiða leitað til orkuöflunar. Aðferðir eru mismunandi frá því sem við þekkjum hér að virkja náttúrulegar auðlindir okkar, vatnsföll og jarðvarma í stað þess að brenna kolum, gasi, olíu eða öðru sem til fellur. Umdeildustu skrefin voru eflaust stigin þegar kjarnorkan kom til sögunnar og um nýtingu hennar spruttu miklar deilur. Það þótti yfirvofandi mikil umhverfishætta og við höfum vissulega séð skelfileg dæmi um afleiðingar þess. Á þeim tíma bönnuðu einhverjar þjóðir frekari byggingu kjarnorkuvera og hrintu á sama tíma af stað áætlun til að leggja þau öll niður innan ákveðins árafjölda.

Hver er staða þjóða í nágrenni okkar í dag, þjóða eins og Svía, Hollendinga og Breta? Svíar og Hollendingar hafa dregið bannið til baka og eru að huga að nýjum kjarnorkuverum. Komið hefur fram hér að verið er að skoða þennan möguleika í Eystrasaltslöndum og Bretar hafa nú heimilað að byggð verði kjarnorkuver í einkaeigu. Þess má líka geta að á sama tíma og við ræðum hér um nýtingu helstu orkugjafa okkar eru nokkur kolaver í byggingu í Þýskalandi og þá stöndum við í þessu stríði hérna eða umræðu um nýtingu á einhverjum umhverfisvænustu orkulindum sem völ er á. Fólk fer meira að segja niður á það plan að velta fyrir sér losun á gróðurhúsalofttegundum sem verða til við virkjanaframkvæmdir og við það að ná í þessa umhverfisvænu orku við byggingu orkuveranna. Í þeirri umræðu er tekist á um hvort nýta eigi hana með virkjunum þar sem mesta mögulegt tillit verður tekið til náttúrunnar og hafa sem minnstan umhverfisskaða í för með sér eða hvort við eigum hreinlega að sleppa því að virkja meira í bili, er sagt a.m.k., sleppa því að framleiða orku frá vistvænum orkugjöfum og nýta hana þannig til framdráttar fyrir fólkið og byggðina í landinu. Því spyr ég, virðulegi forseti: Hvað eigum við þá að gera til að byggja upp áfram öflugt atvinnulíf og stemma stigu við þeirri byggðaþróun sem við höfum búið við svo hastarlega undanfarna áratugi?

Ég hef ekki orðið var við svo miklar tillögur sem taka til lausna í þeim málum frá þeim andstæðingum sem hér tala. Í umræðu um stefnu stjórnvalda fyrr í dag náði ég ekki inn á mælendaskrá. Þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði svo fjálglega um stefnu vinstri grænna í virkjana- og atvinnumálum kallaði ég fram í og óskaði eftir tillögum, tillögum um lausnir fyrir betra mannlíf, sérstaklega fyrir þær byggðir sem hafa farið illa út úr byggðaþróuninni. Mér var bent á að lesa stefnuskrá VG og ég gluggaði í hana í dag. Með leyfi forseta, langar mig aðeins að hlaupa á nokkrum þáttum.

Í kaflanum Náttúra og umhverfi segir:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar.“

Ég held að við getum tekið undir það þó að áherslurnar séu mismunandi hjá okkur um hvaða leiðir við viljum fara til þess vegna þess, a.m.k. er það mín skoðun og fleiri, að það er ekki hægt að gera það alfarið, það verður að gera það með einhverri nýtingu. Í stefnuskrá VG segir nefnilega líka:

„… og þær á að nýta í þágu almannahagsmuna án þess að gengið sé á umhverfið.“

Ég veit ekki alveg hvernig menn ætla að nýta náttúruauðlindir öðruvísi en að ganga með einhverjum hætti á umhverfið, ég held að það sé mjög erfitt, en spurningin er auðvitað um að fara varlegustu leiðir sem hægt er að fara.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggst gegn mengandi stóriðju og stórvirkjunum. Þeir vilja vernda hálendi Íslands og stofna þar til stórra þjóðgarða og friðlanda. Aðstaða allra landsmanna verður að vera sem jöfnust, óháð búsetu og félagslegri aðstöðu.

Þetta segir í kaflanum um eflingu byggðar:

„Stöðu landsbyggðarinnar verður að styrkja með róttækum kerfisbreytingum og valddreifingu til að treysta byggð. Afar brýnt er að bregðast við fólksflótta frá landsbyggðinni, fyrst af öllu með því að leiðrétta þá fjárhagslegu mismunun sem landsbyggðarfólk býr við í námskostnaði, húshitun og vöruverði.“

Þetta tökum við undir og við höfum verið að leita leiða til þess að draga úr kostnaði landsbyggðarfólks við þessa þætti og miklu fleiri.

„Fjölbreytt atvinnulíf og öflug menningarstarfsemi ásamt traustri samfélagsþjónustu og góðum skólum er undirstaða lífvænlegrar byggðar.“

Mikið rétt, en það verður að vera fólk í byggðunum til þess að fara í skólana og nota þessa samfélagslegu þjónustu. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill beita sér fyrir því að atvinnulífið þróist í átt til aukinnar fjölbreytni og nýti umhverfisvæna tækni. … Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir, einkum við sjávarsíðuna og í sveitum landsins, þróist í sátt við samfélagið … Nýta ber sérstöðu Íslands og íslenskar auðlindir …“

Ég kallaði í dag, virðulegi forseti, eftir hugmyndum, hugmyndum til að vinna úr, raunverulegum hugmyndum, og þetta er kjarni umræðunnar. Hér takast á skoðanir um raunverulega eflingu byggðar í landinu með því að nýta þær auðlindir sem við erum svo lánsöm að hafa, til fjölbreyttari atvinnusköpunar. Auðlindirnar eru ekki svo fjölbreyttar hér á landi, hér er ekki olía enn sem komið er, hér er ekki skógur, hér eru ekki málmar í jörðu, allt hlutir sem margar aðrar þjóðir búa við. En hér er náttúruvæn orka og í mínum huga er það ekki spurning um hvort við þurfum að virkja heldur með hvaða hætti og á hvaða tíma og allt þarf þetta að gerast í samhengi.

Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem segja að það verði að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar að nýtingu kemur. Það er ekki rétt sem fram kom hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrr í dag að við sjálfstæðismenn viljum fara fram með einhverju offorsi í þessum málum. Sá ágæti þingmaður er sagður hafa sagt einhvern tíma að staða konunnar væri á bak við eldavélina (Gripið fram í.) og hlegið við. Annar ágætur þingmaður, honum ekki ókunnugur, Ágúst frá Brúnastöðum, orðaði það svo þegar bændur í Flóanum fengu rafmagnið um miðjan sjötta áratuginn, með leyfi forseta vil ég vitna í það en hann sagði, sá ágæti maður:

„En nú þegar rafmagnið er komið ætti kvenþjóðin ekki að þurfa að flýja sveitirnar vegna þægindaskorts.“

Þetta var kjarni málsins þá (Gripið fram í.) og er það enn. Við þurfum að ganga með virðingu um náttúru okkar og reyna að skapa jafnvægi milli þess að búa til raunveruleg atvinnutækifæri, grundvallaratvinnutækifæri í sem mestri sátt við umhverfið. Við þurfum að skapa aðstæður fyrir hámarksnýtingu þeirra virkjana sem fyrir eru og í því sambandi var umfjöllun hæstv. iðnaðarráðherra og hv. þm. Ólafar Nordal hér fyrr í dag mjög áhugaverð. Efling dreifikerfisins er mjög mikilvæg í þessu samhengi auk þess sem hún gegnir líka mikilvægu öryggissjónarmiði.

Hvaða þjóð hefur efni á því að nýta ekki náttúruauðlindir sínar? Að tala eins og andstæðingar þess sem hér tala er ábyrgðarlaust að mínu mati. Við höfum búið við gríðarlega miklar breytingar í atvinnuháttum. Við búum við það að í sjávarútvegi er miklu minni mannaflaþörf, aukin tækni, og það sama á við um landbúnað. Við höfum búið við byggðaþróun sem hefur haft í för með sér atgervisflótta, ungt fólk snýr ekki heim til sveitanna aftur af því að það hefur ekki tækifæri til að fá vinnu við hæfi.

Virðulegi forseti. Ég vil í þessari umræðu og í frekari umræðu um þessi mál tengja þetta búsetu í landinu og atvinnumöguleikum sem við kunnum að skapa til að stöðva þá byggðaþróun sem verið hefur. Ég vil að við látum umræðuna frekar snúast um virkjanir og fjölbreyttari nýtingu náttúruauðlinda okkar með raunverulegum árangri fyrir fólkið í landinu og látum þær byggðir sem verst hafa farið út úr byggðaþróuninni njóta forgangs númer eitt, tvö og þrjú.