135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:45]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa talað hér áður að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um lækkun tekjuskatts á fyrirtæki er mikið fagnaðarefni. Ég tek líka undir með þeim sem vilja ganga enn lengra í þeim efnum. Ég tel það hafa sýnt sig og sannað á síðastliðnum tveimur áratugum hvernig sú skattstefna þar sem skattar eru lækkaðir, regluverk einfaldað hefur sýnt sig vera undirstaða þeirra framfara og kaupmáttaraukningar sem orðið hefur í íslensku samfélagi.

Þetta er nefnilega svo einfalt. Við búum í hnattvæddum heimi þar sem samkeppni er um fólk og fyrirtæki. Ef við hér á norðurhjara veraldar ætlum að standa okkur í þeirri samkeppni og halda í okkar góðu framsæknu fyrirtæki og það góða fólk sem hér býr verðum við að vera samkeppnisfær. Við verðum alltaf að vera á tánum til að tryggja að við höldum forskoti okkar til þess að hafa fólkið okkar og fyrirtækin hér heima.

Ég tek undir með síðasta ræðumanni að viðbrögð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru fyrirsjáanleg. Það má aldrei lækka skatta. Það er aldrei rétti tíminn. Það eru aldrei réttu skattarnir og það má alls ekki gera það núna. Þetta er, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, gömul saga og ný og mun því miður ekki breytast. Þeir skilja nefnilega ekki samhengið. Þeir hreinlega fatta það ekki að það eru jú fyrirtækin sem skapa verðmætin (Gripið fram í: Er það ekki fólkið?) og það eru fyrirtækin sem borga fólki laun. Það er fólkið og fyrirtækið sem skapa verðmæti en fólkið gerir það ekki án þess að vinna hjá fyrirtækjum sem eru rekin í góðu umhverfi. Það er forsenda þess að hægt sé að borga fólki góð laun.