135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:52]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Full ástæða er til að þakka félögum okkar í Sjálfstæðisflokknum fyrir gott samstarf um skattalækkanir í tengslum við nýgerða kjarasamninga og það einróma hrós og lof sem það hefur hlotið hér hjá stjórnarandstöðunni.

Það er nefnilega mikilvægt fyrir okkur jafnaðarmenn að ríkisstjórnin hafi, í kjölfar mikilvægra kjarabóta fyrir lífeyrisþega, aldraða og öryrkja, lýst því yfir að farið verði í að hækka persónuafsláttinn. Ég tel að um það hafi allir þingflokkar í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili verið sammála að mikilvægt væri að forgangsraða skattalækkunum þannig að þær kæmu hinum lægst launuðu mest til góða, og sömuleiðis að ráðast í að auka vaxtabætur og auka barnabætur. Því það sýnir sig að við notum ekki skatta- og bótakerfið nægilega vel til að hjálpa kannski sérstaklega barnafjölskyldum, fátækum barnafjölskyldum og venjulegu launafólki með húsnæðisskuldir og börn á framfæri, í sinni framfærslu. Þess vegna er ástæða til að fagna þeim áherslum sem fram koma í skattalækkununum í tengslum við gerð síðustu kjarasamninga.

Hér á Íslandi eru hins vegar háir skattar og það hefur aldrei verið tekin jafnstór sneið af kökunni til hins opinbera. Sem betur fer vegna þess að við viljum reka hér öflugt velferðarkerfi. En vonandi skapast svigrúm til frekari skattalækkana á næstu missirum. Þá er hins vegar mikilvægt að þær verði fyrst og fremst notaðar, og það hlýtur að vera forgangsmál, til góða fyrir venjulegt fólk, fólk með meðaltekjur og lágar tekjur. Fjölskyldufólk og barnafólk í landinu.

En það er ekki hægt að halda áfram að lækka skatta fyrr en vextir fara að lækka í landinu. Vegna þess að vextir, hæstu (Forseti hringir.) vextir í heimi, eru auðvitað mestu og dýrustu skattarnir sem láglaunafólk og skuldsett fólk og fjölskyldufólk (Forseti hringir.) borgar í þessu landi og þess vegna er mikilvægt að vaxtalækkunarferli Seðlabankans (Forseti hringir.) fari að hefjast.