135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:03]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með sjávarútvegsráðuneytið í um 17 ár og ber því höfuðábyrgð á þróun mála í kringum kvótakerfið og stöðu sjávarútvegsins. Ég ætla að spara mér öll stóryrði í garð hæstv. ráðherra vegna loðnubrests og stöðu þorskstofnsins. Við framsóknarmenn lögðumst harðlega gegn ákvörðun sjávarútvegsráðherra um niðurskurð þorskstofnsins síðasta sumar eins og menn muna og töldum hana arfavitlausa.

Niðurskurður þorskveiðanna var röng aðferð og illa grunduð af hálfu ráðherra og ríkisstjórnar. Ég tel reyndar að Hafrannsóknastofnun hefði gott af því að fá samkeppni og nýjan aðila við hliðina á sér úr háskólasamfélaginu og háskólasetrum landsbyggðarinnar og þess vegna í samstarfi við erlenda háskóla eða vísindamenn. Byggðakvóti var það, heillin. Sjálfstæðisflokkurinn breytti byggðakvóta, því miður, í ráðherrakvóta.

Sjávarútvegsráðuneytið hvarf frá því að láta Byggðastofnun eftir föstum reglum úthluta byggðakvótanum. Ráðherra tók málið nánast inn á sitt borð og klögumálin ganga síðan á víxl. Staðan er sú að úthlutun þessara 12 þús. tonna af óslægðum botnfiski fer seint fram, og stundum ekki eins og deilurnar standa. Eftir þessu var breytt í þessa veru.

Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur haft horn í síðu byggðakvótans og viljað hann feigan. Þessi aðferð er komin í óefni, er bastarður í kerfinu. Hæstv. ráðherra situr síðan pungsveittur við að úthluta lífsgæðum sem ekki gengur upp í stjórnsýslunni í dag, hvorki siðferðilega né stjórnsýslulega.

Nú gerist það að jafnaðarmannaleiðtoginn, hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, vill taka upp og opna þá leið að þessi byggðakvóti verði seldur á uppboði hæstbjóðanda. Þá hæfist braskið fyrir alvöru. Auðhyggjan víkur fyrir mannúð hjá Samfylkingunni. Hún lagði svo til að peningunum yrði úthlutað til sjávarbyggða. Ég get sagt hér að mér var misboðið að heyra þessa endemis vitleysu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hafa ríkisstjórnarflokkarnir rætt þessa leið? Agli gamla Skallagrímssyni datt kannski í hug að dreifa silfrinu yfir þingheim af því að hann hafði gaman af bardaga. Það yrði sannarlega barist ef þessi leið yrði farin, þá barist um peninga sem kæmu ekki að því gagni sem þarf til að rétta hlut sjávarbyggðanna.

Byggðakvótinn er öflugt tæki til að efla hagkerfi sjávarbyggða. Úthlutun peninga fer oftar í handaskolum og til þeirra sem annast annað en fiskvinnslu eins og mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar sanna. Sannleikurinn er sá að sú aðferð að fela Byggðastofnun að móta regluúthlutun reyndist sjávarbyggðum vel. Festan var sú að aflaheimildum var úthlutað til allt að fimm ára í senn. Í gegnum það styrktist fiskvinnsla og fiskveiðar í sjávarþorpum. Þetta kerfi skilaði litlum stöðum hagsæld og atvinnu sem eiga tiltölulega litla möguleika til að auka hagsæld sína nema í gegnum veiðar og vinnslu.

Nú spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort ekki sé rétt að viðurkenna að það hafi verið mistök að færa úthlutun á byggðakvóta inn í sjávarútvegsráðuneytið og hvort ekki sé rétt að byggðakvóti fari á ný til úthlutunar í gegnum skýrar og heiðarlegar reglur sem Byggðastofnun setur og hún annist málið á ný.

Í þriðja lagi vil ég nefna við þessa umræðu hvort hæstv. ráðherra sjái leið í gegnum byggðakvótann til að koma til móts við mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna eins og einhverjir hafa nefnt, að byggðakvótinn yrði pottur sem færi til svæðisbundinna veiða á landsbyggðinni og væri ákveðin opnun á fiskveiðistjórnarkerfið. Öll viljum við sjá líf í sjávarþorpum, stemningu og nýjan uppgang en þar ríkir því miður stöðnun og deyfð. Ríkisstjórnin hefur ekki svarað kalli þessa fólks, hún hefur í rauninni hætt fólk í þessum byggðum með mótvægisaðgerðum sínum, því miður. Það er harmsefni. En við viljum sjá að mannréttindi þeirra sem þar búa og eiga að eiga veiðirétt í firðinum heima fram yfir aðra séu skoðuð sérstaklega og bætt.

Þetta er það viðhorf sem ég vil heyra hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Vill hann endurskoða þessi mál og færa þau í fagleg vinnubrögð þar sem skýrar reglur og réttlætiskennd ráða aðferð en ekki að allt sé í handaskolum þar sem ráðherra situr sjálfur í ráðuneyti sínu með úthlutunarrétt? Því miður hefur það farið (Forseti hringir.) illa á síðustu árum eins og dæmin sanna, hæstv. forseti.